Þórir Ólafsson gat ekki tekið þátt í æfingu íslenska landsliðsins í morgun. Hann er að glíma við leiðinlega tognun aftan í læri og óvíst með framhaldið hjá honum.
Búið er að kalla Arnór Þór Gunnarsson til Álaborgar og hann mun taka sæti Þóris í hópnum ef hann nær ekki að jafna sig í tíma. Þarf að taka ákvörðun um það í fyrramálið.
„Staðan á mér er betri en ég þorði að vona í gær. Ég var þrjá daga að jafna mig síðast en maður hefur ekki þrjá daga til þess að jafna sig á svona móti,“ sagði Þórir eftir æfingu landsliðsins.
Hann liðkaði sig aðeins á æfingunni. Fór til sjúkraþjálfara og kastaði síðan bolta. Meira gat hann ekki gert í dag.
„Það verður unnið í þessu í dag og á morgun. Svo verður tekin ákvörðun um hvort það þurfi að skipta mér út. Arnór er kominn til Álaborgar og staðan verður tekin í kvöld,“ segir Þórir en hversu bjartsýnn er hann á að geta haldið áfram keppni í Danmörku?
„Það verður bara að skoðast hvort ég geti nýst liðinu. Þetta er smá tittlingaskítur en samt nóg til þess að halda aftan af manni. Það er ekkert hægt að vera á 70 tiil 80 prósent hraða. Annað hvort er maður á fullu í þessu eða sleppir því.“
Viðtalið við Þóri í heild sinni má sjá hér að ofan.
