Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, ákvað í morgun að skipta línumanninum Jesper Nøddesbo út fyrir hornamanninn Anders Eggert.
Eggert er einn besti vinstri hornamaður heims en missti af upphafi EM í Danmörku vegna meiðsla. Hann er nú heill heilsu á ný og hefur verið tekinn inn í danska landsliðshópinn.
„Ég hef ávallt verið með átján manna leikmannahóp tiltækan og nú þegar Eggert hefur jafnað sig á sínum meiðslum hef ég nú valið að gefa Jesper Nøddesbo hvíld með þeim möguleika að taka hann aftur inn í hópinn síðar í mótinu,“ sagði í tilkynningu frá Wilbek í morgun.
Nøddesbo leikur með Barcelona á Spáni og skoraði fimm mörk fyrir Dani í riðlakeppninni, öll gegn Austurríki. Hann spilaði 20 mínútur í þeim leik en minna í hinum leikjum Dana í A-riðli.
Danir eru með tvo aðra línumenn í sínum leikmannahóp tiltæka, þá Rene Toft Hansen og Michael Knudsen.
Ísland og Danmörk mætast í lokaumferð milliriðlakeppninnar á miðvikudagskvöldið. Ísland leikur gegn Austurríki síðar í dag og en Danir mæta liði Spánverja í kvöld.
