Handbolti

Aron: Gæti notað Róbert meira á vítalínunni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Róbert á ferðinni í Dortmund í kvöld.
Róbert á ferðinni í Dortmund í kvöld. nordicphotos/bongarts
"Þetta sigurmark var algjör snilld. Frábært skot og líka gaman að sjá að það virkaði hjá okkur að vera með mann í vesti í sókninni þarna," sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari við Vísi eftir 35-34 sigur Íslands á Rússlandi í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur liðanna í fjögurra þjóða æfingamóti sem fram fer í Þýskalandi. Ísland spilar við Austurríki á morgun og Þýskaland á sunnudag.

Sóknarleikur íslenska liðsins var flottur í kvöld en Aron viðurkennir að hafa áhyggjur af varnarleiknum sem var langt frá því að vera sannfærandi.

"Hafsentarnir Sverre og Vignir ganga ekki alveg heilir til skógar og Bjarki Már er reynslulítill. Við erum því að reyna að púsla saman varnarleiknum og þá fáum við líka vonandi betri markvörslu,“ segir Aron.

Strákarnir fóru illa að ráði sínu á vítalínunni í gær. Fyrstu þrjú vítin fóru forgörðum en þá kom til skjalanna Róbert nokkur Gunnarsson og hann var ekki í vandræðum með að klára vítaköstin.

"Hann sagðist vera klár. Hann tók víti í Danmörku á sínum tíma og kann þetta vel," sagði Aron en verður Róbert vítaskytta í dag?

"Það verður að koma í ljós. Það er ekkert ólíklegt að hann verði notaður meira á punktinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×