Handbolti

Danir fóru illa með Norðmenn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Danir eru greinilega komnir í EM-gírinn því þeir slátruðu Norðmönnum á æfingamóti í Frakklandi í kvöld. Danska liðið vann þá tólf marka sigur á Norðmönnum, 34-22, eftir að hafa farið illa með norska liðið í seinni hálfleik.

Norðmenn eru með Íslandi í riðli á EM í Danmörku og verða mótherjar íslenska liðsins í fyrsta leiknum um næstu helgi. Danir verða mótherjar Íslands komist strákarnir okkar í milliriðil.

Norðmenn voru 12-9 yfir um tíma í fyrri hálfleik eftir 8-1 sprett og voru svo tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13. Danir sýndi sitt rétta andlit eftir hlé og Evrópumeistararnir unnu seinni hálfleikinn 21-7.

Danir fengu greinilega góða hálfleiksræðu frá Ulrik Wilbek því þeir unnu fyrstu sextán mínútur seinni hálfleiksins 14-2.

Lasse Svan Hansen, Casper U. Mortensen, Henrik Møllgaard og Kasper Søndergaard skoruðu allir fjögur mörk fyrir Danmörku en Håvard Tvedten var markahæstur hjá Noregi með fjögur mörk.

Frakkar unnu 29-23 sigur á Katar í hinum leik æfingamótsins í dag.  Frakkar og Danir mætast á morgun en Norðmenn spila við Katarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×