Friðrik er húðflúraður í bak og fyrir, og hefur ekki tölu á hversu mörg flúrin eru orðin. "Ég hef ekki hugmynd um hvað þau eru mörg. Ég hætti að nenna að telja fyrir löngu,“ segir Friðrik, en hann fékk fyrsta flúrið þegar hann var 16 ára gamall.
Friðrik fluttist til Eskifjarðar þegar hann fékk vinnu í álverinu á Reyðarfirði og vöktu húðflúrin mikla athygli til að byrja með. "Það var svolítið gónt á mann í fyrstu, en núna er fólk orðið vant þessu,“ segir Friðrik. Hann fer reglulega til Reykjavíkur til að láta flúra sig.
Friðrik segir ekki mikla tattú-menningu að finna á Eskifirði, en þó veit hann af einum og einum með flúr. "Þeir eru nú ekki margir. Allavega ekki svona mikið flúraðir.“
En er hægt að fá húðflúr fyrir austan?
"Það er alveg hægt að láta flúra sig hérna, en ég fer yfirleitt alltaf til sama mannsins í Reykjavík,“ segir Friðrik, en sá heitir Jason og starfar hjá Reykjavík Ink.
"Ég hef farið til hans í mörg ár og það er nóg fyrir mig að segja honum hvað ég vil og þá teiknar hann það. Eiginlega undantekningarlaust líkar mér vel við það, enda veit hann alveg hvað ég vil.“
"No comment" á Jar-Jar

"Ég er mikill Star Wars-aðdáandi,“ segir Friðrik og útilokar ekki að fá sér fleiri Star Wars-húðflúr. Hann hefur hins vegar ekki í hyggju að skreyta sig með hinum umdeilda Jar Jar Binks, eyrnastóra sprellikarlinum úr The Phantom Menace.
"No comment. Hann er óþolandi.“