Handbolti

Aron Rafn: Verið að breyta mér í sænskan markvörð

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson landsliðsmarkvörður Íslands í handbolta segist vera á uppleið eftir að hafa átt erfitt uppdráttar fyrstu mánuði sína hjá sænska félaginu GUIF. Gerðar voru breytingar á leikstíl hans sem hafi tekið hann tíma að ná tökum á.

„Mér finnst ég hafa bætt mig úti, sérstaklega í síðustu þremur leikjum. Ég átti erfitt uppdráttar til að byrja með. Við gerðum miklar breytingar á því hvernig ég stóð í markinu og hvernig ég er í markinu.

„Stílnum var breytt mikið og ég þurfti að taka eitt skref aftur á bak til að taka tvö skref áfram,“ sagði Aron sem líkir breytingunum við það þegar kylfingur gerir breytingar á gripi sínu eða sveiflu.

„Þetta er svipað og þegar kylfingar gera breytingar en þetta tekur ekki tvö ár eins og stundum hjá þeim. Þetta tók mig þrjá mánuði og er að koma hægt og rólega.

„Þetta felst í breytingu á staðsetningum og að sjá leikinn fyrir sér og hvernig skotin koma á markið. Það er verið að breyta mér í sænsk-finnskan  markvörð. Markmannsþjálfarinn okkar er Finni en hann hefur búið í Svíþjóð frá því hann var 11 ára þannig að hann er í raun sænskur.

„Hann sér um grunnþjálfun fyrir alla markmenn yngri landsliða Svía og hann er hjá sænska kvennalandsliðinu. Þetta er mjög öflugur og góður markmannsþjálfari. Þetta eru jákvæðar breytingar eða ég vona það,“ sagði Aron Rafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×