Fótbolti

Freyr: Hefðum getað verið 4-0 eða 5-0 yfir í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta var ánægður eftir 2-1 sigur á Serbíu í dag í undankeppni HM 2015 en þetta var fyrsti sigur liðsins undir hans stjórn.

„Ég var fyrst og fremst ánægður með að taka þrjú stig í þessum leik en það var líka margt annað sem ég var ánægður með," sagði Freyr Alexandersson í samtali við Hilmar Þór Guðmundsson starfsmann KSÍ.

„Það gekk allt upp hjá okkur í fyrri hálfleik og frammistaða stelpnanna í fyrri hálfleiknum var mjög góð. Leikskipulagið var gott og einstaklingsframtökin mjög jákvæð. Leikmenn þorðu að halda bolta og við færðum marga leikmenn framar með því, kláruðum stöðuna einn á einn og stelpurnar voru bara virkilega öflugar," sagði Freyr en íslenska liðið var 2-0 yfir í hálfleik.

„Við pressuðum mjög hátt og gerðum það vel, unnum marga bolta á miðsvæðinu og náðum að sækja hratt. Þegar þær komust á bak við okkur þá leysti varnarlínan og markvörðurinn það mjög vel. Við hefðum getað verið 4-0 eða 5-0 yfir í hálfleik," sagði Freyr.

Íslenska liðið náði ekki að fylgja þessu eftir í seinni hálfleiknum.

„Það fór mikil orka í hápressuna og við vorum of lengi í henni í seinni hálfleik. Þær fóru að pressa á okkur þegar stelpurnar voru orðnar þreyttar og liðið náði ekki að leysa það nægilega vel. Mér fannst þær ekki fá mörg færi en þetta var óþægilegt því þær voru meira með boltann heldur en í fyrri hálfleik," sagði Freyr

„Ég var mjög hrifinn af frammistöðu serbneska liðsins í seinni hálfleik en hugarfarið og dugnaðurinn hjá mínum stelpum var framúrskarandi,“ sagði Freyr en það er hægt að sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×