Fótbolti

Lagerbäck ætti kannski að hringja í Gordan Strachan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck og aðstoðarmaður hans Heimir Hallgrímsson.
Lars Lagerbäck og aðstoðarmaður hans Heimir Hallgrímsson. Mynd/Valli
Lars Lagerbäck og aðstoðarmaður hans Heimir Hallgrímsson eru væntanlega nú þegar komnir á fullt að afla sér upplýsinga um króatíska landsliðið sem verður mótherji Íslands í næsta mánuði í umspilsleikjum um sæti á HM í Brasilíu.

Góð byrjun væri kannski að hringja í Gordan Strachan, fyrrum leikmann Manchester United og núverandi þjálfara skoska landsliðsins. Skotar unnu nefnilega báða leikina á móti Króatíu í undankeppninni.

Skotland vann fyrst 1-0 sigur á Króatíu á Maksimir-leikvanginum í Zagreb í júní þar sem að Robert Snodgrass skoraði eina markið á 26. mínútu.

Skotar unnu síðan einnig seinni leikinn en sá leikur skipti reyndar engu máli. Skotar unnu þá 2-0 sigur á Hampden Park í Glasgow í lokaleik liðanna í riðlinum. Robert Snodgrass var þá aftur á ferðinni í fyrri hálfleik en hitt markið skoraði Steven Naismith tólf mínútum fyrir leikslok.

Sex stig, þrjú mörk og hreint mark er frábær árangur hjá Skotum á móti þessu sterka króatíska liði ekki síst þar sem að skoska liðið náði bara í einn sigur og fimm stig út úr hinum átta leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×