Fótbolti

Sjálfsmark tryggði Manchester United þrjú stig á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Manchester United er í efsta sæti í A-riðli Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir nauman 1-0 sigur á spænska liðinu Real Sociedad á Old Trafford í kvöld en það var sjálfsmark á annarri mínútu leiksins sem skildi á milli liðanna. Wayne Rooney átti frábæran leik og fékk fullt af færum til að skora en hann átti mikinn þátt í eina marki leiksins.

Manchester United hefur náð í sjö stig af níu mögulegum og er með eins stigs forskot á þýska liðið Bayer 04 Leverkusen sem tók annað sætið af Shakhtar Donetsk í kvöld.

Wayne Rooney ruglaði varnarmenn spænska liðsins algjörlega í ríminu strax á 2. mínútu leiksins eftir snarpan einleik í teignum og átti síðan í framhaldinu skot í stöngina og út. Inigo Martínez var enn ringlaður eftir gabbhreyfingar Rooney og sendi frákastið klaufalega í eigið mark.

Wayne Rooney fékk tækifæri til að bæta við marki í fyrri hálfleiknum en gestirnir úr Baskalandi fengu einnig sín færi og það besta þegar Antoine Griezmann skaut í stöngina úr aukaspyrnu rétt fyrir hálfleikinn.

Það var vel tekist á og sex gul spjöld fóru á loft í fyrri hálfleiknum hjá hollenskum dómara leiksins.

Alberto de la Bella hjá Real Sociedad átti skot í slá á 59. mínútu og fjórum mínútum síðar átti Antonio Valencia skot í stöngina hinum megin eftir frábæran undirbúning Wayne Rooney.

Rooney fékk frábært færi til að skora á 71. mínútu en skaut yfir og stuðningsmenn United losnuðu ekki við stressið fyrr en að dómarinn Bas Nijhuis flautaði til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×