Þórsarar eru áfram með fullt hús í Dominos-deild karla í körfubolta eftir 100-98 sigur á KFÍ í frábærum leik í Jakanum á Ísafirði í kvöld en þar var einmitt hægt að sjá leikinn í beinni útsendingu hér á Vísi í boði KFÍTV.
Mike Cook Jr. tryggði Þór sigurinn þegar hann skoraði sigurkörfuna einni sekúndu fyrir leikslok en tólf sekúndum fyrr hafði Nemanja Sovic jafnaði metin í 98-98 með þriggja stiga körfu.
Þórsliðið hefur unnið alla þrjá leiki sína í deildinni en þetta var fjórða tap KFÍ-liðsins í röð.
Mike Cook Jr. og Nemanja Sovic fóru á kostum hjá Þór en þeir komust báðir yfir 30 stiga múrinn í þessum leik, Cook skoraði 37 stig og tók 10 fráköst og Sovic var með 36 stig og 13 fráköst.
Jason Smith var með 33 stig og 11 stoðsendingar fyrir KFÍ sem var þremur stigum yfir þegar fimmtán sekúndur voru til leiksloka. Mirko Stefán Virijevic var með 24 stig og 14 fráköst og Ágúst Angantýsson skoraði 14 stig.
KFÍ byrjaði leikinn mun betur á meðan lykilmenn Þórsara, Ragnar Ágúst Nathanaelsson og Baldur Þór Ragnarsson voru í miklu villuvandræðum í fyrsta leikhlutanum þar sem að þeir fengu báðir þrjár villur.
KFÍ var 21-18 yfir eftir fyrsta leikhlutann og var tíu stigum yfir, 42-32, þegar tæpar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Þórsarar unnu hinsvegar þessar þrjár mínútur 14-2 og voru tveimur stigum yfir í hálfleik, 46-44, eftir þriggja stiga körfu frá Þorsteini Ragnarssyni í lokin.
Þórsarar héldu frumkvæðinu í þriðja leikhlutanum og voru sjö stigum yfir, 77-70, fyrir lokaleikhlutann. Ísfirðingar voru hinsvegar búnir að jafna í 80-80 eftir tvær mínútur og lokamínúturnar voru síðan æsispennandi.
KFÍ virtist vera að ná sigrinum í hús á lokasekúndunum en þá komu þeir félagar Nemanja Sovic og Mike Cook Jr. með risakörfur sem skiluðu lærisveinum Benedikts Guðmundssonar tveimur stigum með sér suður í Þorlákshöfn.
KFÍ-Þór Þ. 98-100 (21-18, 23-28, 26-31, 28-23)
KFÍ: Jason Smith 33/11 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 24/14 fráköst, Ágúst Angantýsson 14/8 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 12, Leó Sigurðsson 8, Jón Hrafn Baldvinsson 7.
Þór Þ.: Mike Cook Jr. 37/10 fráköst, Nemanja Sovic 36/13 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 7/4 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 7/4 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 5/7 fráköst.
Körfubolti