Hin þrítuga Meseret Defar frá Eþíópíu tryggði sér í dag Heimsmeistaratitilinn í 5000 metra hlaupi kvenna en hún vann einnig þessa grein á Ólympíuleikunum í London fyrir ári síðan.
Meseret Defar kom í mark á 14 mínútum og 50,19 sekúndum en í öðru sæti var Mercy Cherono frá Keníu. Almaz Ayana frá Eþíópíu vann síðan bronsið.
Meseret Defar vann þessa grein á HM í Osaka árið 2007 en hafði misst af gullinu á undanförnum tveimur heimsmeistaramótum þar sem hún varð að sætta sig við brons bæði á HM í Berlín 2009 og á HM í Daegu 2011.
Defar hefur nú unnið fimm verðlaun í 5000 metra hlaupi á heimsmeistaramóti því hún fékk silfur á HM í Helsinki. Safnið hennar telur nú tvö gull, eitt silfur og tvö brons á HM í frjálsum en þá hefur hún unnið tvö gull og eitt brons á 5000 metra hlaupi á Ólympíuleikum.
