Sport

Sveinbjörg og María bættu sinn besta árangur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sveinbjörg Zophaníasdóttir.
Sveinbjörg Zophaníasdóttir. Mynd/Silfrið.is
Sveinbjörg Zophaníasdóttir, fjölþrautarkona úr FH, hafnaði í þriðja sæti einstaklinga í 2. deild EM landsliða sem nú fer fram í Portúgal.

Sveinbjörg fékk alls 5479 stig í þrautinni sem er besti árangur hennar til þessa. Hún átti fyrir best 5424 stig.

Hún var í forystu fyrir lokagreinina, 800 m hlaup, en missti keppendur frá Króatíu og Danmörku fyrir framan sig þrátt fyrir að hafa náð besta tíma sínum í greininni, 2:23,53 sekúndum.

Þá náði María Rún Gunnlaugsdóttir, Ármanni, einnig frábærum árangri en hún endaði með 5321 stig. Það er einnig persónuleg bæting hjá henni og hafnaði hún í sjöunda sæti einstaklinga.

Þar með er ljóst að María Rún vann sér inn þátttökurétt á EM U-22 sem fer fram síðar í sumar. Sveinbjörg var þegar búin að vinna sér inn þátttökurétt á mótinu en hún er ríkjandi Norðurlandameistari í þessum aldursflokki.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, fékk samtals 4933 stig en Arna Stefanía Guðmundsdóttir, ÍR, kláraði ekki sína þraut eftir að hafa gert þrívegis ógilt í langstökki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×