Viðskipti erlent

Lífrænar danskar kartöflur voru teknar upp í Egyptalandi

Danski kartöfluframleiðandinn Svanholm er kominn í sviðsljós fjölmiðla þar í landi. Svanholm auglýsir á umbúðum sínum að kartöflur frá þeim séu lífrænt ræktaðar undir opinberu eftirliti. Það hefur hinsvegar komið í ljós að kartöflurnar sem eru til sölu frá Svanholm þessa dagana voru teknar upp í Egyptalandi.

Kartöflurnar frá Svanholm kosta 13 danskar kr. kílóið í Nettó í Kaupmannahöfn og eru því töluvert dýrari en aðrar kartöflur sem seldar eru hjá þeirri verslunarkeðju. Glöggur neytandi þeirra tók eftir því í vikunni að búið var að setja lítinn límmiða aftan á umbúðir Svanholm þar sem segir að þær séu frá Egyptalandi.

Politiken ræðir um málið við Camillu Udsen stjórnenda hjá Neytendaráði Danmerkur sem segir að markaðssetning Svanholm sé vægast sagt á gráu svæði og villandi fyrir neytendur. Að vísu standi á umbúðum Svanholm að þeir nýti sér lífrænt ræktaðar kartöflur frá öðrum býlum en ekki er tekið fram að þau geti verið hvar sem er í heiminum.

Poul Henrik Hedeboe forstjóri Svanholm biðst afsökunar á þessu klúðri og segir að á þessum tíma ársins séu engar danskar kartöflur til staðar á markaðinum í tvær til fjórar vikur og því verði Svanholm að nýta sér erlendar kartöflur. Hedeboe, sem er nýtekinn við starfi sínu, segir að næsta vor muni Svanholm selja hinar erlendu kartöflur í sérmerktum umbúðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×