Ragnar Á. Nathanaelsson, 218 sentímetra miðherji úr Hamar, mun spila með Þór Þorlákshöfn í Dominos-deild karla í körfubolta næsta vetur en þetta kemur fram á heimasíðu Þórsara og karfan.is. Þórsarar eru þar með búnir að semja við hæsta körfuboltamann landsins.
Ragnar hefur leikið með Hamar alla sinn feril en Hvergerðingar verða áfram í 1. deild karla á næstu leiktíð eftir að hafa tapað fyrir Val í úrslitaeinvíginu um sæti í úrvalsdeildinni.
„Þetta er góður hópur með flottan þjálfara. Ég er að klára stúdentinn ásamt því að ljúka við húsasmíðabraut og því ekki langt að sækja skóla þar sem maður er að skipta úr uppeldisfélaginu. Þannig varð Þór fyrir valinu,“ sagði Ragnar í viðtali á karfan.is sem hægt er að nálgast allt hér.
Ragnar var með 9,1 stig, 11,8 fráköst og 3,3 varin skot að meðaltali í leik í 1. deild karla á nýloknu tímabili en hann var með 5,5 stig, 8,3 fráköst og 2,5 varin skot að meðaltali þegar hann lék síðast í úrvalsdeildinni tímabilið 2010-11.
Ragnar mun spila sína fyrstu A-landsleiki á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg sem hefjast í næstu viku.
Arsenal
Dinamo Zagreb