Körfubolti

Lakers í bílstjórasætið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kobe Bryant keyrir framhjá Xavier Henry í leik liðanna í nótt.
Kobe Bryant keyrir framhjá Xavier Henry í leik liðanna í nótt. Nordicphotos/Getty
Kobe Bryant skoraði 23 stig í fjórða leikhluta þegar L.A. Lakers lagði New Orleans Hornets á heimavelli sínum 104-96. Sigurinn kom Kaliforníuliðinu í áttunda sæti Vesturdeildar, hið síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni.

Kobe skoraði alls 30 stig, Pau Gasol 22 og Dwight Howard bætti 19 í púkkið. Lakers á enn eftir að spila fjóra leiki en hefur hálfs leiks forskot á Utah Jazz. Stæðu liðin jöfn að stigum eftir 82 leiki færi Jazz í úrslitakeppnina á úrslitum í innbyrðisviðureignum liðanna.

Jazz sótti ekki gull í greipar Oklahoma City Thunder með Kevin Durant í fararbroddi. Durant skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og átti níu stoðsendingar í 90-80 heimasigri. Oklahoma er nú hálfum leik á eftir San Antonio sem situr í efsta sæti Vesturdeildar.

Klay Thompson skoraði 25 af 30 stigum sínum í fyrri hálfleik þegar Golden State Warriors lagði Minnesota Timberwolves 105-89. Með sigrinum tryggði Golden State sér sæti í úrslitakeppninni í fyrsta skipti síðan tímabilið 2006-2007. Ricky Rubio, skotbakvörður Minnesota, vill væntanlega gleyma leiknum sem fyrst en ekkert skota hans tíu utan af velli rötuðu í körfuna.

LeBron James skoraði 28 stig þegar Miami Heat vann Milwaukee Bucks 94-83 á heimavelli. Sigurinn var sá 61. hjá Miami í vetur sem er jöfnun á félagsmeti liðsins frá tímabilinu 1996-1997. Miami á enn eftir að spila fimm leiki og hefur fjögurra leikja forskot á efsta lið Vesturdeildar, San Antonio Spurs. Allt stefnir því í að liðið hafi heimaleikjarétt út úrslitakeppnina.

Önnur úrslit

Houston Rockets 101-98 Phoenix Suns

New York Knicks 120-99 Washington Wizards

Indiana Pacers 99-94 Cleveland Cavaliers

Brooklyn Nets 104-83 Philadelphia 76ers

Memphis Grizzlies 94-75 Charlotte Bobcats

Toronto Raptors 101-98 Chicago Bulls

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×