Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, viðurkennir að hans menn ættu að geta nýtt sér það að Jay Threatt sé ekki heill heilsu. Það breyti þó engu hvernig Garðbæingar nálgist leikinn í kvöld.
„Jú, auðvitað er alltaf vont að missa góða menn. En þannig lagað skiptir engu máli hvort það séu tveir eða þrír Jay Threatt inni á vellinum. Það snýst allt hvað við ætlum að gera," segir Teitur um líklega fjarveru heilans í sóknarleik Snæfells.
Threatt hefur verið í lykilhlutverki hjá Snæfelli í vetur og er stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar. Bandaríkjamaðurinn meiddist nokkuð illa í leik liðanna í Garðabæ á föstudag. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, staðfesti við Vísi í dag að hann reiknaði ekki með því að Threatt yrði með.
Teitur segir lykilatriði að menn velti ekki fyrir sér viðveru eða fjarveru einstakra leikmanna í liði andstæðinganna.
„Um leið og menn fara að hugsa svoleiðis þá gefa menn eftir," segir Teitur og minnir á að leikmenn Snæfells muni eflast verði Threatt ekki með.
„Ef hann verður ekki með gefa hinir leikmennirnir í."
Ástandið á leikmannahópi Stjörnunnar er þokkalegt að sögn þjálfarans.
„Það er alltaf eitthvað hnjask. En menn eru á batavegi frekar en hitt," segir Teitur.
"Þá gefa hinir bara í"

Tengdar fréttir

Reiknar ekki með Threatt
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, reiknar ekki með því að Bandaríkjamaðurinn Jay Threatt verði með liðinu gegn Stjörnunni í kvöld.