Viðskipti erlent

Mestu vandræði í 30 ár

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, segir mikinn vanda steðja að.
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, segir mikinn vanda steðja að.
Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefjast þess að innistæðueigendum í Kýpur verði gert að greiða allt upp undir 10% skatt af innistæðum sínum. Þetta verði gert að skilyrði fyrir því að Evrópusambandið veiti ríkissjóð Kýpur fjárhagsaðstoð en miklir erfiðleikar steðja að rekstri ríkissjóðs þar í landi. Til stendur að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti 10 milljarða evra, eða um 1600 milljarða króna, lán.

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, segir að vandamálin sem ríkið glímir við núna séu þau verstu frá því að Tyrkir réðust inn í landið árið 1974. Þrátt fyrir að hann leggist gegn tillögum Evrópusambandsins og alþjóðgjaldeyrissjóðsins segir Anastasiades að Kýpverjar eigi val um það hvort þeir vilji ná jafnvægi á ríkisfjármálum eða hætta á að hagkerfið hrynji og Kýpur yfirgefi evrusvæðið.

Skilmálar Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru þeir að þeir sem eiga minna en 100 þúsund evrur, eða um 16 milljónir króna, inni á bankareikningum þurfa að greiða 6,75% skatt af innistæðum sínum. Þeir sem eiga meira en það þurfa að greiða 9,9% skatt.

BBC greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×