Zenit er með 2-0 forystu gegn Liverpool eftir fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.
Liverpool byrjaði betur í leiknum en Luis Suarez fór illa að ráði sínu og klúðraði tveimur dauðafærum.
Zenit komst svo yfir með þrumufleyg Brasilíumannsins Hulk á 69. mínútu en hann hafði þá þegar skotið í stöng í leiknum.
Þremur mínútum síðar skoraði Sergei Semak annað mark Zenit af stuttu færi eftir að varnarmenn Liverpool sváfu á verðinum.
Það er því ljóst að það verður á brattann að sækja fyrir Liverpool en síðari leikurinn fer fram á Anfield.

