Körfubolti

NBA í nótt: Lakers og Miami töpuðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant og Steve Nash á bekknum í nótt.
Kobe Bryant og Steve Nash á bekknum í nótt. Mynd/AP
Ekkert gengur hjá meiðslu hrjáðu liði LA Lakers sem tapaði sínum fjórða leik í röð er liðið mætti Houston. Lokatölur voru 125-112, heimamönnum í vil.

Stóru mennirnir Dwight Howard, Pau Gasol og Jordan Hill eru allir frá vegna meiðsla hjá Lakers. Í þeirra fjarveru var Metta World Peace stigahæstur með 24 stig en Kobe Bryant skoraði 20 og Steve Nash sextán.

James Harden skoraði 31 stig fyrir Houston sem hefur nú unnið fimm leiki í röð. Houston var reyndar mest fjórtán stigum undir í fyrri hálfleik en liðið hefur nú komið til baka og unnið eftir að hafa verið meira en tíu stigum undir í síðustu þremur leikjum sínum.

Houston, sem hefur unnið átta af síðustu tíu leikjum sínum, er í sjötta sæti Vesturdeildarinnar en Lakers er í ellefta sæti og þarf að koma sínum málum á hreint sem fyrst ætli liðið sér í úrslitakeppnina í vor.

Efsta lið Vesturdeildarinnar og núverandi meistarar, Miami Heat, tapaði fyrir Indiana í nótt, 87-77. Reyndar hefur Miami ekki skorað færri stig í allan vetur.

Paul George var með 29 stig og ellefu fráköst fyrir Indiana og þá var David West með fjórtán stig og ellefu fráköst. Indiana hefur nú unnið ellefu að síðustu þrettán leikjum sínum.

Dwayne Wade skoraði 30 stig fyrir Miami og LeBron James var með 22 stig og tíu fráköst. Þessi sömu lið mættust í undanúrslitum Austurdeildarinnar í fyrra og þá hafði Miami betur í sex leikjum.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - Brooklyn 89-109

Indiana - Miami 87-77

Milwaukee - Phoenix 108-99

Houston - LA Lakers 125-112

Minnesota - Atlanta 108-103

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×