Skoðun

Ja, mikið óskaplega ertu nú góð

Árný Guðmundsdóttir skrifar
„Ja, mikið óskaplega ertu nú góð að vera að vinna með þessu fólki," sagði eldra fólk stundum við mig þegar ég byrjaði að vinna fyrir 15 árum. Ekki fannst mér það, ég hafði valið mér eitt skemmtilegasta, fjölbreyttasta og mest spennandi starf að loknu sérnámi við Háskóla Íslands, starf sem krefst þess að ég komi víðar við í samfélaginu en flestir, ef ekki allir, aðrir gera í sínum störfum.

Ég hef verið við störf inni á leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum, einnig á fæðingardeild og við jarðarfarir. Sömuleiðis hef ég sinnt mínum störfum á fasteignasölum og hjá lögfræðingum, lögreglunni og bráðamóttökunni, í áttræðisafmælum og brúðkaupsveislum, hjá spákonu og í hjónabandsráðgjöf. Ekki má gleyma ungbarnaeftirliti og stofugangi á sjúkrahúsi eða stjórnar- og húsfundum, atvinnuviðtölum og fermingum, gay pride og framboðsfundum, ráðuneytum og Alþingi. Varla er hægt að nefna þann atburð þar sem við höfum ekki verið að störfum. Ég er táknmálstúlkur.

Sammála gömlum frænkum

Undanfarin ár hefur mér þó fundist að mínir æðstu yfirmenn hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu séu sammála gömlum frænkum um að við séum góðar – já, við erum kvennastétt. Því ekki virðist þeim finnast þörf á því að greiða mér mannsæmandi laun fyrir mína vinnu. Að loknu háskólanámi fær táknmálstúlkur rétt rúmar 280 þúsund krónur á mánuði.

Á mínum vinnustað, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, vinna 18 KONUR sem táknmálstúlkar með yfir sjö ára starfsreynslu að meðaltali. Starfsreynslan gerir okkur kleift að sinna öllum þessum fjölbreyttu störfum sem við komum að og er okkur nauðsynleg. Við vinnum ekki á vöktum og meðal dagvinnulaunin okkar eru 349.611 kr. á mánuði. Ekkert vaktaálag, en við erum jafnvel kallaðar út á nóttunni og vinnum oft á kvöldin og um helgar.

Ef við segjum upp

Ef við segjum upp getum við ekki fengið vinnu í Noregi; þar er talað norskt táknmál.

Ef við segjum upp fær fólk sem fékk móðurmál sitt nýverið viðurkennt í lögum sem jafnrétthátt íslenskri tungu ekki lengur þjónustu á því.

Ef við segjum upp fer þjóðfélagið ekki á hliðina, en heill hópur fólks fær ekki að sinna sínum daglegu skyldum á eigin móðurmáli, nokkuð sem sem okkur finnst sjálfsagt að gera.

Ef við segjum upp…




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×