Körfubolti

Kobe Bryant í metabækurnar

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Kobe Bryant náði merkum áfanga í NBA-deildinni í fyrrakvöld þegar hann skoraði sitt 30.000 stig í deildinni frá upphafi. Bryant, sem er 34 ára gamall, er sá yngsti sem kemst yfir 30.000 stig í sterkustu körfuboltadeild heims.

Kareem Abdul-Jabbar er stigahæsti leikmaður allra tíma, en hann skoraði alls 38.387 stig á 20 ára ferli í deildinni.

Karl Malone kemur þar næstur með 36.928 stig, en hann lék í 19 ár í deildinni. Michael Jordan er þriðji í röðinni með 32.292 stig. Wilt Chamberlain skoraði 31.419 stig á 14 ára ferli.

Bryant er sá yngsti sem kemst yfir 30.000 stigin. Chamberlain var 35 ára, Abdul-Jabbar og Malone voru báðir 36 ára og Jordan var 38 ára. Þrír leikmenn sem eru á lista yfir 20 stigahæstu leikmenn allra tíma í NBA-deildinni eru enn að skora stig; Bryant, Kevin Garnett og Dirk Nowitzki.

„Satt best að segja veit ég ekki af hverju ég legg enn hart að mér eftir 17 ár í deildinni. Ég hef enn gaman af því sem ég er að gera, og ég er stoltur að geta sagt að ég legg mig alltaf fram við það sem ég geri," sagði Bryant, sem hefur leikið með Los Angeles Lakers frá því að hann kom inn í NBA-deildina árið 1996.

Bryant hefur skorað tæplega 28 stig að meðaltali í leik í vetur en á ferlinum hefur hann skorað 25,4 stig að meðaltali í leik. Hann er rétt rúmlega 8.000 stigum frá metinu sem er í eigu Kareem Abdul-Jabbar, sem skoraði 38.387 stig á 20 ára ferli sínum.

Ef Kobe Bryant heldur meðaltali sínu næstu fjögur árin á hann möguleika á að verða stigahæsti leikmaður allra tíma í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×