Skoðun

Við megum ekki gefast upp

Auður Guðjónsdóttir skrifar
Eins og ýmsum er kunnugt samþykkti Norðurlandaþingið tillögu um mænuskaða á þingi sínu árið 2011. Tillagan kom upprunalega frá Íslandi og unnu þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir, Helgi Hjörvar og Álfheiður Ingadóttir ötullega að því að koma henni í gegn.

Í stórum dráttum gekk tillagan út á að ráðið setti á fót sérfræðingahóp með það hlutverk að skoða stóru rannsóknarmynd mænunnar og reyna að finna út hvort mögulegt væri að samþætta rannsóknarniðurstöður og nota sem innlegg í þróun lækningastefnu fyrir mænuskaða. Slík heildarskoðun gæti ekki aðeins gagnast mænuskaða heldur einnig sjúkdómum í mænu s.s. MS, MND og fleiru.

Þrátt fyrir mikilvægi tillögunnar get ég því miður ekki sagt farir hennar rennisléttar innan Norðurlandaráðs. Á Norðurlandaþinginu sem haldið var í byrjun nóvember kom í ljós að ráðherranefndin, sem hefur úrslitavald um hvort samþykktar tillögur lifa eða deyja, hefur ákveðið að taka eitt ár til viðbótar í að meta hvort mænuskaði verði gerður að forgangsmáli eða ekki.

Mænuskaði í forgang

Skaði á mænu er eitt erfiðasta viðfangsefni læknavísindanna. Mjög erfiðlega hefur gengið að þróa lækningastefnu fyrir hann og þarf vísindasviðið alvarlega á aðstoð að halda. Ef miðað er við framfarir á mörgum öðrum vísindasviðum þá þyrfti í raun að blása til alþjóðlegs átaks í þágu lækninga á mænuskaða.

Sem fulltrúa Íslands í ráðherranefnd Norðurlandaráðs um velferðarmál bið ég Guðbjart Hannesson vinsamlegast um að beita töfrum sínum og sannfæra kollega sína í ráðherranefndinni um nauðsyn þess fyrir mannkynið að starfshópnum verði komið á fót. Þetta mál er það langt komið að ekki má gefast upp á endasprettinum. Það verður að berjast til sigurs og klára málið á þeim forsendum sem lagt var upp með og koma mænuskaðanum í forgang. Ég treysti því að velferðarráðherra verði við bón minni.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×