Skoðun

Stjórnarskráin – gröfum stríðsexina

Össur Skarphéðinsson skrifar
Þátttaka, og niðurstöður, atkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána um helgina komu mörgum þægilega á óvart. Þátttakan var miklu meiri en a.m.k. flestir áttu fyrir fram von á. Skilaboðin til Alþingis voru skýr.

Í fyrsta lagi tók fast að helmingur atkvæðisbærra manna þátt í atkvæðagreiðslunni.

Það er mjög hátt hlutfall. Það er hærra en sést að jafnaði í Sviss, sem hefur mesta reynslu af beinu lýðræði af þessu tagi.

Í öðru lagi voru niðurstöðurnar mjög afgerandi. Mikill meirihluti, eða ríflega 66%, vill nýja stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga, sem um var kosið. Öllum spurningum sem lagðar voru fyrir þjóðina var svarað játandi. Það var athyglisvert að í einu tilviki tók þjóðin aðra afstöðu en lá fyrir í drögum stjórnlagaráðs – og vill þjóðkirkju í stjórnarskrána. Það sýnir að fólk tók sjálfstæða afstöðu, vó og mat tillögur í drögunum, og komst að eigin niðurstöðu.

Yfirgnæfandi stuðningur, eða 84,1%, var við lykiltillögu um að stjórnarskrá mæli skýrt fyrir um sameign þjóðarinnar á auðlindum. Þjóðin lýsti einnig afdráttarlausum vilja til að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur, efla persónukjör, og hafa jafnt vægi atkvæða.

Milli stjórnmálaflokka hafa verið mismunandi skoðanir á þessum þáttum og aðferðinni við að semja nýja stjórnarskrá. Nú er það allt að baki. Þjóðin hefur talað – og hún hefur talað mjög skýrt.

Við þessar aðstæður á Alþingi að grafa stríðsexina, og mynda breiða samstöðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Hún þarf að byggja á gagnkvæmu tilliti, en hún þarf líka að vera trú þeirri lýðræðislegu vinnu sem liggur að baki stjórnarskrárdrögunum, og þar með niðurstöðu kosningarinnar.

Þetta á að verða meginverkefni á þinginu í vetur: að útfæra frumvarp sem til er orðið með þjóðfundi og kjörnum fulltrúum til stjórnarskrárvinnu. Samstaða um það er besta leiðin sem Alþingi getur farið til að endurvinna traust landsmanna. Í kjölfar þeirrar vinnu færi vel á að leggja frumvarpið í dóm þjóðarinnar samfara þingkosningum í vor. Alþingi hefur þá í hverju skrefi unnið með þjóðinni að því að búa til nýja stjórnarskrá.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×