Skoðun

Mannréttindaráðherra hunsar lög

Einar Steingrímsson skrifar
Haustið 2009 flúði Mohammed Lo, tvítugur maður, frá Máritaníu. Þar hafði hann verið þræll frá blautu barnsbeini, enda sonur þræla og þar með „réttmæt“ eign húsbóndans sem hafði þrælkað foreldrana alla ævi þeirra. Það var skömmu eftir lát móður sinnar sem Mohammed flúði, en faðirinn lést fáum árum áður; hvorugt naut nokkurn tíma læknisþjónustu. Fyrir utan systur sína, sem samtímis flúði til Senegal, þekkti Mohammed ekkert fólk nema nokkra samþræla sína.

Mohammed dvaldi fáa mánuði á Spáni en fór síðan til Noregs. Þaðan kom hann til Íslands og sótti um hæli sem flóttamaður í desember 2010. Því var synjað, og Útlendingastofnun úrskurðaði að hann skyldi sendur aftur til Noregs. Staðreyndirnar eru þessar:

Þrælahald er algengt í Máritaníu og ekki er efast um frásögn Mohammeds. Fólk sem hneppt hefur verið í þrældóm á rétt á hæli og ekki má senda það aftur til heimalandsins.

Útlendingastofnun (UTL) fékk bréf frá Interpol í Noregi þar sem sagt var að ef Mohammed yrði snúið aftur til Noregs yrði hann sendur þaðan til Máritaníu. Samkvæmt nýlegum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu má Ísland því ekki senda Mohammed til baka til Noregs.

Samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasáttmálum á Mohammed því rétt á hæli á Íslandi.

Þrátt fyrir þetta ætlaði UTL að senda Mohammed tilbaka, og stofnunin hafði ekki meiri áhuga á máli hans en svo að hún notaði túlk sem ekki skildi eina málið sem Mohammed getur tjáð sig á.

Farið var fram á að innanríkisráðherra frestaði brottvísun Mohammeds þar til ráðuneytið hefði lokið meðferð kæru vegna ákvörðunar UTL. Því var synjað og hefur Mohammed síðan verið í felum á Íslandi, þar sem hann hefur eignast talsvert af vinum og kunningjum.

Málið hefur nú verið hjá ráðherra frá því í júlí. Af einhverjum ástæðum hefur ráðherra ekki viljað gera það sem honum ber, né að skikka UTL til að fylgja lögum.

Útlendingastofnun er löngu þekkt fyrir lögleysur og óvönduð vinnubrögð. Margir héldu þegar Ögmundur Jónasson varð ráðherra mannréttindamála að hann myndi a.m.k. ekki taka þátt í að brjóta á augljósum rétti flóttamanna sem eiga yfir höfði sér pyntingar og ævilangan þrældóm. Annað virðist komið á daginn.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×