Viðskipti erlent

Bellota skinka var stjarnan á mataruppboði í París

Það var Bellota skinka frá landamærum Spánar og Portúgal sem var stjarnan á mataruppboði til styrktar Rauða krossinum í París í vikunni.

Skinka þessi var ekki að keppa við neina aukvisa því í boði voru m.a. truffle sveppir, ostrur og fimm stjörnu kvöldverður eldaður af einum þekktasta kokki Frakklands svo dæmi séu tekin.

En það var skinkan sem átti kvöldið. Hún var seld fyrir 2.600 evrur eða á verði sem er vel yfir 100.000 krónum á kílóið. Ágóðinn af þessu uppboði fór til reksturs súpueldhúss Rauða krossins í París.

Skinkan sem hér um ræðir þykir sú allra besta. Hún er söltuð og loftþurrkuð og er að sögn sérfræðinga Rolls Royceinn í kjötframleiðslu í heiminum.

Skinkan heitir jamón ibérico de bellota og er búin til úr svarthærðum svínum sem fá að ganga frjáls um eikarskógana á landamærum Spánar og Portúgal. Svínin eru svo eingöngu alin á hnetum síðustu vikurnar fyrir slátrun.

Það tekur að lágmarki 36 mánuði að verka þessa skinku en sú sem seld var í París hafði verið 58 mánuði í verkun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×