Viðskipti erlent

Bakreikningur ógnar framtíð FIH bankans

Seðlabanki Íslands seldi FIH bankann árið 2010.
Seðlabanki Íslands seldi FIH bankann árið 2010.
Dómsmál sem er í uppsiglingu gegn Bankaumsýslu Danmerkur (Finansiel Stabilitet) gæti endað með stórum bakreikningi til FIH bankans. Þar með myndu minnka enn frekar möguleikar Seðlabanka Íslands á að fá helminginn af söluverðinu fyrir FIH bankann endurgreiddan.

Málið snýst um að í febrúar í ár yfirtók bankaumsýslan stóran hluta af fasteignalánum FIH eða fyrir um 17 milljarða danskra króna. Síðan voru vextirnir á þessum lánum hækkaðir.

Þeir sem skulda lánin eru ekki ánægðir með vaxtahækkunina og hefur eitt fasteignafélag höfðað mál gegn bankaumsýslunni vegna vaxtanna.

Lögmaður þessa félags segir að vissulega eigi bankaumsýslan ekki að keppa við bankana á fasteignamarkaðinum með því að bjóða lægri vexti en þeir. Hinsvegar séu einnig til staðar skilmálar í þessum lánum og bankaumsýslan hafi ekki staðið við þá skilmála.

Í frétt um málið í Berlingske Tidende segir að ef bankaumsýslan tapi málinu muni bakreikningur upp á um hálfan milljarð danskra króna eða nærri 11 milljarða króna lenda á FIH bankanum bara á fyrsta árinu. Um slíkt hafi verið samið við yfirtökuna á lánunum.

Henrik Bjerre-Nielsen forstjóri bankaumsýslunnar staðfestir þetta. Hann segir að bankaumsýslan muni ekki tapa neinu fé fyrr en hluthafar í FIH bankanum hafi tapað fjárfestingu sinni.

Seðlabankinn seldi FIH bankann árið 2010 fyrir 5 milljarða danskra kr. eða yfir 100 milljarða kr. Nær helmingur söluverðsins var staðgreiddur en helmingurinn var að mestu bundinn við gengi bankans fram til ársins 2014. Ef framangreint mál tapast er útséð um að Seðlabankinn fái nokkuð fé vegna gengis FIH bankans næstu tvö árin og gæti því tapað allt að rúmlega 50 milljörðum kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×