Körfubolti

NBA í nótt: Lakers tapaði á heimavelli gegn Indiana

Pau Gasol og Kobe Bryant leyndu ekki vonbrigðum sínum eftir tapið gegn Indiana í nótt.
Pau Gasol og Kobe Bryant leyndu ekki vonbrigðum sínum eftir tapið gegn Indiana í nótt. AP
George Hill tryggði Indiana Pacers 79-77 sigur gegn Los Angeles Lakers á útivelli í nótt í NBA deildinni í körfubolta. Hill skoraði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út og 40 stig frá Kobe Bryant dugðu skammt að þessu sinni.

Hill skoraði 19 stig fyrir Indiana en þetta var þriðji sigur liðsins í röð í Staples Center, heimavelli Lakers. Indiana hélt hraðanum niðri og leikmenn Lakers áttu í tómu basli í sóknarleiknum.

Bryant jafnaði metin þegar 24,5 sekúndur voru eftir með þriggja stiga körfu. Undir stjórn Mike D'Antoni er Lakers með 2 sigra og 3 tapleiki en hann tók við þjálfun liðsins eftir að Mike Brown var rekinn.

Lakers daðraði við að bæta félagsmet í lægsta stigaskori frá upphafi og slökustu skotnýtingu frá upphafi – en átta stig á síðustu mínútum leiksins komu í veg fyrir að þau met féllu.

Philadelphia – Dallas 100-98

Evan Turner skoraði 22 stig fyrir Philadelphia, Thaddeus Young skoraði 20 og Jrue Holiday skoraði 18 og gaf 7 stoðsendingar í 100-98 sigri liðsins gegn Dallas. Philadelphia hafði fyrir leikinn tapað sex leikjum í röð gegn Dallas.

Chris Kaman skoraði 20 stig fyrir Dallas, Elton Brand og Shawn Marion skoruðu 17 stig hvor.

Houston – Toronto 117-101

James Harden skoraði 24 stig og gaf 12 stoðsendingar fyrir Houston sem er persónulegt met í NBA deildinni hjá Harden. Patrick Patterson bætti við 22 stigum fyrir heimamenn, Omer Asik skoraði 13 stig og tók 18 fráköst.

Andrea Bargnani skoraði 21 stig fyrir gestina frá Kanada sem hafa nú tapað fimm leikjum í röð.

Sacramento – Minnesota 89-97

Kevin Love er að ná fyrri styrk í liði Minnesota en hann skoraði 23 stig og tók 24 fráköst í góðum útisigri gegn Sacramento. Þar með lauk fimm leikja taphrinu Sacramento. Love missti af fyrstu 9 leikjum tímabilsins þar sem hann handarbrotnaði á æfingu.

Tyreke Evans og DeMarcus Cousins skoruðu 20 stig hvor fyrir Sacramento. Luke Ridnour skoraði 18 og Nikola Pekovic skoraði 16 og tók 8 fráköst.

Cleveland – Phoenix 78-91

Goran Dragic skoraði 19 stig fyrir Phoenix, Michael Beasley skoraði 15 fyrir gestina en Clevelend hefur tapað 10 af síðustu 11 leikjum sínum. Anderson Varejao skoraði 20 stig og tók 18 fráköst fyrir heimamenn en hann er frákastahæsti leikmaður deildarinnar með 14,7 fráköst að meðaltali.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×