Viðskipti erlent

Óþekktur konungur í Afríku var auðugasti maður sögunnar

Auðugasti maður sögunnar, að teknu tilliti til verðbólgu, var Mansa Musa I, nær óþekktur konungur í Vestur Afríkuríkinu Malain á þrettándu öld.

Auðæfi Musa, sem voru upp á 400 milljarða dollara eða hátt í 50 þúsund milljarða kr., byggðust á því að á þessum tíma framleiddi konungsríki hans helminginn af öllu salti sem notað var í heiminum og stóran hluta af gullinu.

Konungsríki Mansa Musa náði yfir landsvæðið þar sem nú eru löndin Ghana og Malí. Musa var heittrúaður múslimi og hann notaði auðæfi sín m.a. til að byggja margar stórfenglegar moskur og raunar standa sumar þeirra enn.

Þetta kemur fram á nýjum lista vefsíðunnar Celebrity Net Worth´s yfir 25 auðugustu menn sögunnar. Aðeins þrír einstaklingar eru á lífi á þessum lista en það eru Bill Gates, Warren Buffett og Carlos Slim.

Engin kona er á listanum en 14 Bandaríkjamenn. Þar er að finna nöfn á borð við Rockefeller, Rothschild og Nikulás II Rússakeisara. Raunar er Rothschild fjölskyldan í heild í öðru sæti á listanum en auðæfi hennar eru talin nema 350 milljörðum dollara í dag. Í þriðja sæti kemur svo bandaríski iðnaðarjöfurinn Andrew Carnegie sem uppi var á seinni hluta 19. aldarinnar en auðæfi hans námu 310 milljörðum dollara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×