Fótbolti

Mata með tvö mörk í Kaupmannahöfn og Chelsea vann 4-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Evrópumeistarar Chelsea unnu sinn fyrsta sigur í titilvörninni þegar þeir sóttu þrjú stig til Kaupmannahafnar í kvöld. Chelsea vann þar 4-0 sigur á Nordsjælland en enska liðið hafði gert 2-2 jafntefli á heimavelli á móti Juventus í fyrstu umferðinni.

Spánverjinn Juan Manuel Mata skoraði tvö mörk í leiknum, þriðja markið skoraði brasilíski varnarmaðurinn David Luiz beint úr aukaspyrnu og Ramires innsiglaði síðan sigurinn í lokin.

Juan Manuel Mata kom Chelsea í 1-0 á 33. mínútu. Fernando Torres vann boltann af varnarlínu danska liðsins og Frank Lampard spilaði Mata fríann.

Nordsjælland-liðið var þarna búið að vinna sig inn í leikinn eftir stress í byrjun en Evrópumeistarnir nýttu sér vel sofandahátt í vörninni.

Nordsjælland-menn voru ekkert á því að gefa sig og áttu góða spretti. Joshua John var mjög nálægt því að jafna metin á 73. mínútu þegar Petr Cech varði skot hans í stöngina. Það voru hinsvegar Chelsea-menn sem áttu lokakafla leiksins.

David Luiz kom Chelsea í 2-0 á 79. mínútu með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu og þremur mínútum síðar labbaði Juan Manuel Mata í gegnum vörnina og skoraði sitt annað mark í leiknum.

Brasilímaðurinn Ramires skoraði síðan fjórða markið á 89. mínútu eftir sendingu frá landa sínum Oscar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×