Enski boltinn

Mourinho: Ég lofa því að ég kem aftur í enska boltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho og Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
José Mourinho og Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/AFP
José Mourinho, þjálfari Real Madrid, hefur þurft að synda í gegnum ólgusjó spænskra fjölmiðla á þessu tímabili enda hefur gengi Real Madrid í spænsku deildinni verið dapurt og liðið aðeins búið að vinna 1 af fyrstu 4 leikjum sínum.

Mourinho gerði Real Madrid að spænskum meisturum síðasta vor og er því búinn að gera félög að landsmeisturum í fjórum löndum því Porto, Chelsea og Inter urðu einnig meistarar undir hans stjórn. Hann er ekkert að fela þá ósk sína um að komast í enska boltann og talaði enn á ný um það fyrir leik helgarinnar.

„Ég leyni því ekkert hvað ég er að hugsa um að gera í framtíðinni. Ég mun fara til Englands eftir að ég hætti hjá Real Madrid. Ég lofa því enda er ég alltaf að tala um það," sagði José Mourinho í viðtali við Sky Sports.

Mourinho var stjóri Chelsea frá 2004 til 2007 og undir hans stjórn vann félagið fyrsta enska meistaratitil sinn í 50 ár en Chelsea vann bæði 2005 og 2006. En er Portúgalinn tilbúinn að stjórna öðrum félögum á Englandi en Chelsea.

„Ég er tilbúin að stýra öllum félögum. Ég er blár, London-blár, en ég er samt bara einn maður," sagði José Mourinho með sínum einstaka sjarma og heldur þar með því opnu að hann stýri öðrum félögum en Chelsea þegar hann snýr aftur í ensku úrvalsdeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×