Viðskipti erlent

Eignarhlutir ríkisins tæplega 200 milljarða virði

Magnús Halldórsson skrifar
Íslenska ríkið á ríflega 80 prósent hlut í Landsbankanum.
Íslenska ríkið á ríflega 80 prósent hlut í Landsbankanum.
Eignarhlutir ríkisins í endurreistu bönkunum eru nú tæplega 200 milljarða króna virði, sé mið tekið af eiginfjárstöðu bankanna (innra virði). Ríkið hyggst selja eignarhluti í bönkunum á næstu árum, en halda þó enn eftir kjölfestuhlut í Landsbankanum.

Eignasala ríkisins hefur oftar en ekki verið umdeild, og er skemmst að minnast sölu ríkisins á eignarhlutum sínum í Búnaðarbanknum og Landsbankanum, fyrir um áratug. Eftir hrun fjármálakerfisins og endurreisn þess, fyrir fjórum árum, eru stjórnvöld aftur farin að huga að því að selja hlut í bönkunum, þó endanleg tímasetning þess eða útfærsla liggi ekki fyrir. Fram hefur komið í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að hlutir ríkisins verði seldir í með það að leiðarljósi að hafa dreift eignarhald, og að ríki verði kjölfestueigandi í einum banka.

Sé mið tekið af eiginfjárstöðu bankanna er ljóst að verðmæti hluta ríkisins í bönkunum er umtalsvert.

Hlutur ríkisins í Landsbankanum er ríflega 172 milljarða króna virði, um 13 prósent hlutur í Arion banka er 16 milljarða króna virði og fimm prósent hlutur í Íslandsbanka tæplega sjö milljarða króna virði. Samtals nemur virði hlutann í endurreistu bönkunum þremur, því ríflega 195 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×