Viðskipti erlent

Óttast „sáfræðilegar afleiðingar“ fyrir Evrópu

Magnús Halldórsson skrifar
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, segist óttast að kreppan á evrusvæðinu geti haft „sálfræðilegar afleiðingar" fyrir alla álfuna ef ekki tekst að ná sátt um aðgerðir þar sem neyðin er stærst. Þetta kom fram í viðtali þýska blaðsins Spiegel við Monti en breska ríkisútvarpið BBC vitnar til þess í umfjöllun á vefsíðu sinni. Monti óttast að þjóðir Evrópu fari í auknu mæli að hugsa um eigin hag, frekar en hag heildarinnar, ef ekki tekst að ná víðtækri sátt um mikilvægustu aðgerðirnar.

Viðræður standa nú yfir milli Seðlabanka Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og grískra stjórnvalda um endurnýjun á skilyrðum fyrir lánveitingum til Grikklands. Fulltrúar seðlabankans og AGS yfirgáfu Aþenu í dag, eftir nokkurra daga viðræður, en þær snúast að mestu hvernig útfæra eigi niðurskurðaraðgerðir hins opinbera, svo að ríkissjóður Grikklands geti greitt lánin til baka, og að pólitísk samstaða náist um þær.

Haft er eftir Poul Thomsen, hagfræðingi AGS, í umfjöllun BBC að viðræðurnar hafi gengið vel og að nú sé stefnt á að ljúka þeim í byrjun september. Poul Thomsen var aðalmaður AGS hér á landi þegar íslensk stjórnvöld sömdu við AGS um fjárhagsaðstoð eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008. Hann hefur leitt vinnu AGS í Grikklandi undanfarna mánuði.

Sjá má umfjöllun um BBC um þessi mál hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×