Viðskipti erlent

Olíuverkfallið í Noregi stöðvað með neyðarlögum

Norska stjórnin greip til neyðarlaga seint í gærkvöldi til að stöðva verkfallið sem verið hefur meðal norskra olíustarfsmanna undanfarnar tvær vikur og koma í veg fyrir boðað verkbann olíuframleiðenda landsins sem átti að hefjast um miðnættið.

Hanne Bjurström atvinnumálaráðherra Noregs segir að ákvörðunin sé tekin til að vernda þjóðarhagsmuni Noregs og að hún beri ábyrgð á henni. Þetta hafi hinsvegar verið þung ákvörðun fyrir hana.

Úrslitatilraun til að ná samkomulagi milli verkalýðsfélaganna og olíuframleiðendanna var gerð aðfararnótt sunnudagsins en bar ekki árangur. Norskir olíuframleiðendur gátu alls ekki fallist á kröfur verkalýðsfélagana um að lækka eftirlaunaaldur olíustarfsmanna úr 65 árum og niður í 62 ár.

Ef olíuframleiðslan hefði stöðvast hefði það kostað Norðmenn miklar fjárhæðir. Áætlað var að tap Statoil hefði numið um 550 milljónum norskra króna eða 11 milljörðum króna á dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×