Viðskipti erlent

Hreinlætisvörufyrirtæki kærir Apple

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Vörumerkið var upphaflega skráð árið 2000 eða níu árum áður en stýrikerfi Apple kom á markað.
Vörumerkið var upphaflega skráð árið 2000 eða níu árum áður en stýrikerfi Apple kom á markað. mynd/wikipedia
Enn á ný neyðist Apple til að standa í málaferlum í Kína. Nú hefur kínverskt fyrirtæki kært tæknirisann fyrir að hafa notað vörumerkið Snow Leopard í leyfisleysi.

Lögfræðingar kínverska fyrirtækisins Jiangsu Xuebo halda því fram að Apple hafi brotið á því þegar Snow Leopard stýrikerfið kom á markað fyrir nokkrum árum. Bein þýðing á nafni fyrirtækisins á ensku er Snow Leopard eða snjóhlébarði á íslensku.

Vörumerkið var upphaflega skráð árið 2000 eða níu árum áður en stýrikerfi Apple kom á markað.

Jiangsu Xuebo hefur farið fram á að Apple greiði sér rúmlega 80 milljón dollara í skaðabætur eða um tíu milljarða íslenskra króna.

Málið hefur vakið mikla athygli, sérstaklega fyrir þær sakir að Jiangsu Xuebo framleiðir ekki raftæki heldur klósettpappír og aðrar hreinlætisvörur.

Dómstólar í Kína hafa nú þegar þingfest málið en það verður tekið fyrir á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×