Viðskipti erlent

Gjaldeyrisforði Danmerkur tólffalt stærri en forði Íslands

Nettógjaldeyrisforði Danmerkur er nú orðinn um tólffalt stærri en brúttógjaldeyrisforði Íslands.

Hreinn gjaldeyrisforði Dana nemur nú rúmlega 550 milljörðum danskra króna eða um 12.000 milljörðum króna og hefur aldrei verið stærri í sögunni. Á sama tíma nemur skuldsettur forði Íslands rúmum 1.000 milljörðum króna.

Gjaldeyrisforði Dana hefur vaxið gífurlega á undanförnum mánuðum því seðlabanki Danmerkur hefur keypt gjaldeyri í stórum stíl til að halda gengi dönsku krónunnar í skefjum. Þetta hefur komið í kjölfar veikingar á evrunni en danska krónan er bundin við evruna með mjög þröngum frávikum.

Vegna vandræða á evrusvæðinu voru dönsk ríkisskuldabréf álíka vinsæl um tíma og þau svissnesku. Raunar hefur bankastjórn danska seðlabankans íhugað að setja á þau neikvæða vexti eins og Svisslendingar hafa gert með sín bréf.

Í frétt á vefsíðu börsen segir að seðlabankastjórn Danmerkur voni að evran styrkist að nýju svo stjórnin þurfi ekki að stækka gjaldeyrisforða bankans enn frekar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×