Körfubolti

Níu ár síðan að besti leikmaður deildarinnar varð líka meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James með bikarana í nótt.
LeBron James með bikarana í nótt. Mynd/AP
LeBron James var í nótt kjörinn besti leikmaður NBA-úrslitanna eftir að hann fór fyrir sínum mönnum Miami Heat sem unnu 121-106 sigur á Oklahoma City Thunder í fimmta leik liðanna í úrslitaeinvíginu. Miami vann þar með einvígið 4-1 og James er því loksins búinn að krækja í langþráðan meistarahring.

James var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur og fylgdi því eftir með því að vera líka kosinn besti leikmaður úrslitanna. Hann er fyrsti leikmaðurinn í níu ár sem hlýtur bæði þessi verðlaun.

Það sem vekur einnig athygli er það einnig liðin níu ár síðan að besti leikmaður deildarinnar varð NBA-meistari. Síðastur á undan James til afreka tvennuna og vinna titilinn sem besti leikmaður deildarinnar var Tim Duncan með San Antonio Spurs tímabilið 2002 til 2003.

Síðan þá voru átta leikmenn búnir að fá þessi verðlaun án þess að fara alla leið og vinna titilinn en aðeins Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers gat státað af því að fá að taka þátt í úrslitaeinvíginu. Bryant var kosinn bestur 2007-08 en tapaði fyrir Boston Celtics í lokaúrslitunum.



Besti leikmaður NBA og gengi í úrslitakeppni síðustu ár

2011-12 LeBron James Miami Heat - NBA-meistari

2010-11 Derrick Rose, Chicago Bulls - Úrslit Austurdeildar

2009-10 LeBron James, Cleveland Cavaliers - Undanúrslit Austurdeildar

2008-09 LeBron James, Cleveland Cavaliers - Úrslit Austurdeildar

2007-08 Kobe Bryant, Los Angeles Lakers - 2. sæti

2006-07 Dirk Nowitzki, Dallas Mavericks - 1. umferð úrslitakeppninnar

2005-06 Steve Nash, Phoenix Suns - Úrslit Vesturdeildar

2004-05 Steve Nash, Phoenix Suns - Úrslit Vesturdeildar

2003-04 Kevin Garnett, Minnesota Timberwolves - Úrslit Vesturdeildar

2002-03 Tim Duncan, San Antonio Spurs - NBA-meistari

2001-02 Tim Duncan, San Antonio Spurs - Undanúrslit Vesturdeildar

2000-01 Allen Iverson, Philadelphia 76ers - 2. sæti

1999-00 Shaquille O'Neal, Los Angeles Lakers - NBA-meistari

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×