Viðskipti erlent

Stjórnarskrá George Washington seld á uppboði

Persónulegt eintak George Washington af bandarísku stjórnarskránni var selt á langt yfir matsverði á uppboði hjá Christie´s um helgina.

Þetta eintak er prentað og bundið inn í leður en það sem gerir það sérstakt er að í því eru að finna handskrifaðar athugasemdir þessa fyrsta forseta Bandaríkjanna við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar.

Eintakið sem var prentað árið 1789, er í nær fullkomnu ástandi og ættarmerki Washington prýðir fyrstu síðu þess. Þar að auki er að finna í eintakinu fyrstu löggjöfina sem samþykkt var á bandaríska þinginu en þar var um að ræða stofnun nokkurra ráðuneyta á vegum ríkisins, þar á meðal dómsmála-, varnarmála og fjármálaráðuneytanna.

Christie´s hafði metið eintakið á um 2 milljónir dollara. Þegar upp var staðið reyndist hæsta boð nema nærri 10 milljónum dollara eða vel yfir milljarði króna. Tveir aðilar börðust lengi um eintakið á uppboðinu en það var að lokum slegið kvennasamtökunum Mount Vernon Ladies Association.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×