Viðskipti erlent

Færeyingar ræða við Kínverja um umskipunarhöfn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Atvinnumálaráðherra Færeyja vill að á eyjunum verði umskipunarhöfn vegna norðurslóðasiglinga. Hann ætlar að taka málið upp í viðræðum við kínverska sendinefnd sem væntanleg er til Færeyja í næstu viku.

Í viðtali við netmiðilinn oljan.fo segir Johan Dahl landsstýrismaður, en svo nefnast færeysku ráðherrarnir, að þegar skip fari að sigla yfir Norður-Íshafið liggi Færeyjar vel við sem umskipunarhöfn vegna siglingaleiðarinnar.

"Því ætla ég að taka upp spurninguna við kínversku sendinefndina um tækifæri til að gera umskipunarmiðstöð í Færeyjum," segir Johan Dahl.

Færeyski atvinnumálaráðherrann hyggst einnig ræða um olíu- og gasvinnslu og vill greiða leið Kínverja að olíuleit í lögsögu eyjanna.

Rétt eins og í Færeyjum sjá margir á Íslandi ný tækifæri skapast með nýrri og skjótari siglingaleið milli Evrópu og Asíu með bráðnun heimskautaíssins. Þannig eru sveitarfélög á Norðausturlandi farin að gera ráðstafanir til að skipuleggja svæði undir umskipunarhöfn og hafa einnig leitað samstarfs við Kínverja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×