Oklahoma City Thunder tryggði sér í nótt sigur í vesturdeild NBA-körfuboltans og um leið sæti í úrslitaeinvíginu með 107-99 heimasigri á San Antonio Spurs. Oklahoma vann einvígið gegn San Antonio 4-2.
San Antonio vann síðustu tíu deildarleiki sína og þá fyrstu tíu í úrslitakeppninni þegar Oklahoma tók málin í sínar hendur. 2-0 undir í seríunni gegn San Antonio sneru þeir blaðinu gjörsamlega við og var sigurinn í nótt þeirra fjórði í röð.
„Við héldum að þetta væri okkar ár. Okkar tími til að fara í úrslit og vinna deildina aftur," sagði Tim Duncan kraftframherji San Antonio í leikslok sem hefur fjórum sinnum verið í sigurliði San Antonio í NBA.
„Í lokin virtust allir dómar falla með þeim. Það breytti gangi mála. Við reyndum að stöðva þá, halda aftur af þeim en flauta dómaranna gall í hvert skipti. Þeir fóru endurtekið á vítalínuna og fengu ókeypis stig," sagði Duncan niðurlútur.
Oklahoma mætir sigurvegaranum í úrslitum austurdeildar þar sem Boston Celtics leiðir 3-2 gegn Miami Heat. Sjötti leikur liðanna fer fram í nótt.
„Þrátt fyrir að við séum vissulega daprir og niðurlútir er ekki hægt að horfa framhjá því að þetta gengi Oklahoma er eins og upp úr kvikmyndahandriti frá Hollywood," sagði Gregg Popovich þjálfari San Antonio.
„Þeir slógu út meistarana frá því í fyrra, Dallas, fóru í gegnum Lakes og nú í gegnum okkur. Þessi lið hafa unnið tíu af síðustu þrettán NBA-titlum," sagði Poppovich.
Oklahoma slátraði Dallas 4-0 í fyrstu umferð og svo Los Angeles Lakers 4-1 í annarri umferð. Nú hefur San Antonio fengið að kenna á Kevin Durant og félögum sem hljóta að teljast sigurstranglegir fyrir úrslitaeinvígið hver svo sem andstæðingurinn verður.
Körfubolti