Viðskipti erlent

Facebook hækkar verð á hlutabréfum sínum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Um 900 milljón manns nýta sér þjónustu Facebook.
Um 900 milljón manns nýta sér þjónustu Facebook. mynd/AP
Samskiptamiðillinn Facebook hefur hækkað áætlað verð á hlutabréfum sínum úr 28 til 35 dollurum í 34 til 38 dollara. Gangi hlutafjárútboðið að óskum mun virði fyrirtækisins fara yfir 100 milljarða dollara.

Mikil eftirspurn eftir hlutabréfum fyrirtækisins er talin vera ástæðan fyrir hækkuninni. Samkvæmt þessu nýja verðmati gæti virði samskiptamiðilsins orðið meira en Disney, Ford og Kraft Foods.

En þrátt fyrir þessa miklu eftirspurn munu kynningaraðilar Facebook halda áfram ferð sinni um Bandaríkin en þeir hafa á síðustu mánuðum kynnt framtíðarhorfur fyrirtækisins fyrir fjárfestum.

Endanlegt verð á hlutabréfum Facebook verður kynnt á morgun en fyrirtækið verður skráð á almennan markað á föstudaginn.

Mark Zuckerberg, annar stofnandi Facebook og stjórnarformaður, mun þó enn eiga ráðandi hlut í samskiptasíðunni eða um 57.3%

Facebook fagnar átta ára starfsafmæli sínu í ár. Um 900 milljón manns nýta sér þjónustuna að staðaldri en hagnaður síðunnar á síðasta ári nam rúmum milljarði dollara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×