Oklahoma City, efsta lið Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta, vann enn einn sigurinn þegar liðið mætti Minnesota í nótt.
Kevin Durant skoraði 43 stig og Russell Westbrook bætti við 35 stigum auk þess að gefa átta stoðsendingar þegar að Oklahoma City vann fimm stiga sigur, 115-110.
Durant skoraði sextán stig á síðustu sjö mínútum leiksins fyrir Oklahoma sem hefur unnið 44 af 60 leikjum sínum á tímabilinu.
Minnesota var að tapa sínum níunda leik í röð en Anthony Randholph var stigahæstur í liðinu með 22 stig og ellefu fráköst.
San Antonio vantar tvo sigra upp á að jafna Oklahoma City en liðið hafði í nótt betur gegn Phoenix, 105-91. Phoenix er sem stendur í níunda sæti Vesturdeildarinnar og á því harða baráttu fyrir höndum um sæti í úrslitakeppninni.
Tim Duncan var með nítján stig og tíu fráköst og Tony Parker fjórtán. Með sigrinum tryggði San Antonio sér öruggt sæti í úrslitakeppninni.
LA Clippers vann Golden State, 112-104. Chris Paul var með 28 stig og þrettán fráköst en Blake Griffin 20 stig.
Clippers er í fjórða sæti Vesturdeildarinnar og anda ofan í hálsmál granna sinna í Lakers sem er í þriðja sætinu.
Í Austurdeildinni náði Boston að komast aftur á sigurbraut þegar að liðið mætti New Jersey og vann, 94-82. Avery Bradley setti niður þrjú þriggja stiga skot í röð og skoraði ellefu stig í þriðja leikhluta, þegar Boston gerði út um leikinn.
Boston er í fjórða sæti deildarinnar en bæði Atlanta og Orlando eru skammt undan.
Úrslit næturinnar:
LA Clippers - Golden State 112-104
Washington - Cleveland 89-98
New Jersey - Boston 82-94
Memphis - Utah 103-98
Minnesota - Oklahoma City 110-115
Milwaukee - Indiana 99-105
San Antonio - Phoenix 105-91
Körfubolti