Viðskipti erlent

Saudiaröbum gengur vel að tala niður olíuverðið

Saudiarabar halda áfram að tala niður heimsmarkaðsverð á olíu og virðast vera að ná töluverðum árangri í þeim efnum.

Verðið á Brent olíunni er nú komið niður í rúma 124 dollara á tunnuna en verðið stóð í rúmum 126 dollurum þegar Saudiarabar byrjuðu að hnykla vöðvanna um síðustu helgi.

Fyrst var því lekið í Financial Times að Saudiarabar teldu 100 dollara á tunnu ásættanlegt verð og ætluðu sér að auka olíuframleiðslu sína sem og sölu á olíu til Bandaríkjanna þar til verðið færi í þá áttina. Þeir eru þegar búnir að panta nokkur risaolíuskip aukalega í flutninga í þessari viku.

Það kom svo fram í máli Ali Naimi olíumálaráðherra Saudi Arabíu, sem staddur er í Doha höfuðborg Qatar, að Saudiarabar væru reiðubúnir til að auka framleiðslu sína um allt að 25% á dag ef það væri það sem þyrfti til að ná verðinu niður. Eftir þau ummæli hefur olíuverið lækkað töluvert. Þannig hefur bandaríska léttolían lækkað um rúm 2% síðasta sólarhringinn og stendur í rúmum 105 dollurum á tunnuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×