Viðskipti erlent

Áhugi Íslendinga eykur sjálfstraust Kanadamanna

Kanadískir fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um áhuga Íslendinga á því að skipta út krónunni fyrir Kanadadollarann. Þetta hefur vakið athygli hins virta tímarits The Economist.

Í gamansamri grein í Economist segir að þessar hugmyndir Íslendinga ýti undir sjálfstraust Kanadamanna sem upplifi ekkert betra en að fá hagstæðan samanburð við nágranna sína í suðri. Í þessu tilviki Bandaríkjadollarann.

Economist segir að áhugi Íslendinga á Kanadadollaranum falli eins og flís við rass við þær skoðanir Íhaldsflokksins, sem stjórnar landinu, að kanadískur efnahagur sé sá traustasti í heiminum um þessar mundir.

Það er þó eitt ljón í veginum fyrir Kanadamenn því samkvæmt könnunum vilja álíka margir Íslendingar skipta úr krónunni fyrir evru eins og fyrir Kanadadollarann. Economist segir að Íslendingar virðist því skiptast í tvennt í afstöðu sinni til þessara mynta eftir svipaðri línu og Norður-Atlantshafshryggurinn sem skiptir Íslandi í tvennt milli Evrópu og Norður-Ameríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×