Enski boltinn

Cavani hjá Napoli: Þurfum bara að skora og þá komust við áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edinson Cavani fagnar marki sínu í fyrri leiknum.
Edinson Cavani fagnar marki sínu í fyrri leiknum.
Edinson Cavani, framherji og aðalmarkaskorari Napoli, telur að eitt mark á móti Chelsea á Stamford Bridge í kvöld, verði nóg fyrir ítalska liðið til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Napoli vann fyrri leikinn 3-1 og Chelsea nægir því að skora tvö mörk svo framarlega sem liðið haldi marki sínu hreinu. Cavani átti þátt í öllum mörkum Napoli í fyrri leiknum, skoraði eitt og lagði upp tvö.

„Við þurfum bara að skora á Stamford Bridge og þá komust við áfram. Það er því okkar markmið í leiknum að ná einu marki," sagði Edinson Cavani.

„Við sýndum styrk okkar í fyrri leiknum á San Paolo með því að koma til baka eftir að hafa lent undir," sagði Cavani.

„Ensku liðin breytast mikið þegar þau eru komin á heimavöllinn sinn. Þau spila þá allt annan sóknarleik og við þurfum að spila af mikilli skynsemi frá fyrstu mínútu," sagði Cavani.

„Þetta er langt frá því að vera búið þótt að við séum með tveggja marka forskot. Okkur bíður mikil vinna í 90 mínútur á Brúnni en launin eru áframhald á Evrópuævintýrinu okkar," sagði Cavani en hann hefur skorað fimm mörk í sjö leikjum í Meistaradeildinni á þessu tímabili.

Leikur Chelsea og Napoli hefst klukkan 19.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×