Haukar eiga enn möguleika á að bjarga sæti sínu í Iceland Express deild karla í körfubolta eftir fimm stiga sigur á ÍR í Seljaskólanum í kvöld, 92-87, en úrslit annarra leikja þýddu að Haukarnir hefðu fallið með tapi.
Haukar eru nú fjórum stigum á eftir Fjölni og ÍR þegar tvær umferðir og fjögur stig eru eftir í pottinum en búa að því að þeir eru með betri innbyrðisstöðu gegn báðum liðunum.
Christopher Smith skoraði 25 stig fyrir Hauka, Emil Barja var með 19 stig og Alik Joseph-Pauline bætti við 15 stigum, 10 fráköstum og 7 stoðsendingum. Robert Jarvis skoraði 26 stig fyrir ÍR og Rodney Alexander var með 21 stig og 11 fráköst.
Haukar tóku frumkvæðið í byrjun leiks, komust í 6-2 og 12-5 og voru 16-10 yfir þegar fyrsti leikhlutinn var hálfnaður. ÍR-ingar minnkuðu muninn niður í eitt stig en Haukar voru aftur komnir sjö stigum yfir, 26-19, við lok fyrsta leikhlutans. Emil Barja skoraði átta stig í leikhlutanum.
Haukaliðið skoraði fimm fyrstu stig annars leikhluta og var síðan komið tólf stigum yfir, 38-26, þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. ÍR náði góðum spretti og kom muninum niður í sex stig, 40-34, og það munaði síðan aðeins þremur stigum á liðunum í hálfleik, 49-46, eftir að Breiðhyltingar skoruðu sex síðustu stig hálfleiksins.
ÍR-ingar skoruðu sjö fyrstu stig seinni hálfleiksins og voru síðan komnir fjórum stigum yfir, 53-49. ÍR-liðið hélt forystunni fram að lokum leikhlutans en Haukar unnu á og komust síðan einu stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 66-65..
Haukar skoruðu síðan sjö fyrstu stig fjórða leikhluta og komust átta stigum yfir, 73-65. Haukar voru 9 stigum yfir, 86-77, þegar tvær mínútur voru eftir en ÍR-liðið skoraði þá sjö stig í röð á rúmri hálfri mínútu og munurinn vbar kominn niður í tvö stig, 86-84. Haukarnir héldu hinsvegar út og lönduðu lífsnauðsynlegum sigri.
ÍR-Haukar 87-92 (19-26, 27-23, 19-17, 22-26)
ÍR: Robert Jarvis 26/5 fráköst, Rodney Alexander 21/11 fráköst, Nemanja Sovic 17, Ellert Arnarson 8/5 stoðsendingar, Kristinn Jónasson 6/7 fráköst, Níels Dungal 6/5 fráköst, Eiríkur Önundarson 3/4 fráköst.
Haukar: Christopher Smith 25/9 fráköst/4 varin skot, Emil Barja 19/9 fráköst, Alik Joseph-Pauline 15/10 fráköst/7 stoðsendingar, Chavis Lamontz Holmes 12/5 fráköst, Helgi Björn Einarsson 9, Haukur Óskarsson 5, Guðmundur Kári Sævarsson 3, Davíð Páll Hermannsson 2, Örn Sigurðarson 2.
Króatía
Ísland