ESPN hefur heimildir fyrir því að Boston Celtics sé að reyna að skipta út leikstjórnandanum Rajon Rondo en hann er fjórði stigahæsti leikmaður liðsins og einn af bestu leikstjórnendum NBA-deildarinnar í körfubolta.
Það hefur ekki gengið nógu vel hjá Boston-liðinu í vetur en almennt var talið að þetta væri síðasti möguleikinn fyrir "gamla" kjarnann að vinna annan NBA-titil.
Rajon Rondo hefur lent upp á kant við þjálfarann Doc Rivers og þykir ekki auðveldur í samskiptum. Hann hefur engu að síður oftast skilað sínu inn á vellinum en Rondo er með 14,1 stig og 9,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.
Rondo er 26 ára gamall og á því mörg góð ár eftir í NBA-deildinni. Hann hefur misst af leikjum vegna meiðsla og leikbanna en var með þrefalda tvennu (15 stig, 11 fráköst, 10 stoðsendingar) í sigri á Milwaukee Bucks í gær.
Það er síðan önnur saga hvort að Danny Ainge takist að finna lið sem er tilbúið að láta góðan mann fyrir Rondo því það fer ekki á milli mála að Boston þarf á hjálp að halda ætli liðið sér að gera eitthvað á þessu tímabili.
Körfubolti