Viðskipti erlent

Evrópudómstóll fjallar um ACTA

Frá mótmælum í Slóveníu
Frá mótmælum í Slóveníu mynd/AP
Evrópudómstóll hefur verið beðinn um að fjalla um lögmæti viðskiptasamningsins ACTA. Samningurinn felur í sér úrbætur á viðurlögum og eignaupptöku í tilfellum höfundarlagabrota á internetinu.

ACTA samningurinn (e. Anti-Counterfeiting Trade Agreement) hefur verið gagnrýndur af mörgum. Því er haldið fram að samningurinn hafi lítið sem ekkert að gera með viðskipti og sé einungis ætlaður til þess að efla refsingar og viðskiptatálma. Því einnig haldið fram að hann muni hefta frelsi á internetinu.

Karel De Gucht, framkvæmdarstjóri utanríkisviðskipta ESB, sagði að dómstóllinn hafi verið beðinn um að fjalla um samninginn og skera úr um hvort hann fylgi áherslum Evrópusambandsins á grundvallar mannréttindi og einstaklingsfrelsi.

Alls hafa 22 aðildarríki Evrópusambandsins undirritað samninginn, þar á meðal er Bretland. Þýskaland og Danmörk hafa þó dregið til baka stuðning sinn eftir kröftug mótmæli í Evrópu.

Einnig hafa Bandaríkin, Japan og Kanada undirritað samninginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×