Viðskipti erlent

Iceland Foods komin í útrás til Austur-Evrópu

Breska verslunarkeðjan Iceland Foods er komin í útrás til Austur-Evrópu. Þegar hefur ein verslun verið opnuð í Tékklandi.

Verslunin sem hér um ræðir var opnuð í síðasta mánuði í borginni Pilsen og er hún rúmlega 800 fermetrar að stærð. Í fréttum í breskum fjölmiðlum kemur fram að verslun þessi hafi verið sett upp í samstarfi við tékknesku verslunarkeðjuna Czechfrost. Verið er að leita að fleiri hentugum staðsetningum fyrir Iceland verslanir í landinu.

Malcolm Walker forstjóri Iceland segir að reynslan af þessari verslun í Tékklandi sé þegar orðin svo góð að Iceland sé að leita hófana á fleiri mörkuðum í Austur Evrópu, að minnsta kosti bæði í Póllandi og Ungverjalandi. Pólskir fjölmiðlar hafa greint frá þessum áhuga Iceland þarlendis en keðjunni hefur enn ekki tekist að útvega sér viðskiptafélaga í Póllandi.

Walker á sem kunnugt er í samningum við slitastjórnir Landsbankans og Glitnis um kaupin á Iceland Foods. Meðal þeir sem leggja Walker til fjármagn eru Landmark verslunarkeðjan, Lord Kirkham sem er stjórnarformaður DFS húsgagnakeðjunnar og suður-afríski fjárfestingasjóðurinn Brait.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×