Harður árekstur Magnús Halldórsson skrifar 3. febrúar 2012 23:08 Einn eftirminnilegasti kennari sem ég hef haft í gegnum tíðina er Þorsteinn Gylfason heitinn, heimspekiprófessor. Hann var stórkostlegur kennari, afburðagóður fyrirlesari og með yfirburðaþekkingu á viðfangsefninu hverju sinni. Ekki aðeins innra lagi þess - fræðilegum kenningum og inntaki þeirra – heldur ekki síður ytra laginu, þ.e. sögulegum rótum fræðanna, uppsprettu hugmyndanna. Þar kom vítt svið þekkingar hans á menningu og listum til hjálpar. Stundum spilaði hann klassíska tónlist, frá samtíma viðfangsefnisins, til þess að glæða kennsluna lífi. Því fylgdu stundum handahreyfingar og einlæg innlifun.Þrefaldur skammtur Í tímum hjá Þorsteini fengu nemendur alltaf í það minnsta þrefaldan skammt; djúpa greiningu fræða, sögulegan bakgrunn þeirra og síðan einstaka framsögu, sem oftar en ekki leiddi til líflegrar umræðu í tímum. Hann tók öllum nemendum jafnt, lötum sem duglegum. Það er góður eiginleiki fyrir háskólakennara að hafa þar sem háskólanemar eru fjölbreyttur hópur fólks sem er statt á misjöfnum stað á lífsins leið. Þorsteins er sárt saknað við að leysa úr þeirri siðferðilegu kreppu sem íslenska þjóðin er í eftir hrun bankakerfisins, krónunnar og neyðarlagasetninguna 6. október 2008. Beiting neyðarréttarins er siðferðilegt viðfangsefni í eðli sínu, og endurreisn hagkerfisins hefur markast af þeirri ákvörðun. Hvenær er réttlætanlegt að beita neyðarrétti, jafnvel þó að hann beinist óbeint og óhjákvæmilega gegn öðrum þjóðum og hagsmunum þeirra? Það er stóra spurningin. Flestir eru sammála um að neyðarrétturinn hafi bjargað Íslandi úr fordæmalausum aðstæðum og beiting hans verið það eina rétta. Að eðli er þetta sama álitamál og Bretland, Bandaríkin og aðrar stórþjóðir, standa frammi fyrir þegar þær brjóta gegn viðurkenndum lögvernduðum mannréttindum í krafti hryðjuverkalöggjafar, með pyntingum eða til að hindra fjármagnsflutninga sem þær telja óæskilega. Þá er inngripi beitt í krafti neyðarsjónarmiða. Það er t.d. ágætt að halda því til haga, hvað neyðarréttinn snertir, að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins trúðu því ekki að Ísland ætlaði í alvöru að setja neyðarlög haustið 2008 en ekki bera ábyrgð á bönkunum. Þeir voru víst öskuillir, að því er Árni Páll Árnason upplýsti um í ræðu á ráðstefnu í Hörpunni sl. haust.Siðferðiskreppan alvarlegri Mín skoðun er sú, að siðferðilega kreppan sem Ísland er í sé alvarlegri en efnahagserfiðleikarnir. Þeir munu leysast, og eru að leysast, hægt og bítandi. Landsins gæði gera okkur kleift að spyrna við fótum og aðlaga efnahaginn með hjálp okkar eigin seðlabanka hraðar að breyttum veruleika en flest önnur ríki. Það er þolinmæðisverk og ætti að vinnast, hvaða stjórnmálaflokkar sem það eru sem ráða för. Siðferðilega kreppan er alvarlegri en sú efnahagslega af nokkrum ástæðum og er að hluta til við Alþingi að sakast í þeim efnum, að því er mér finnst. En hvernig birtist hún okkur og af hverju er hún alvarleg? Þar koma nokkur atriði upp í hugann.I. Eftir bankahrunið hafði Alþingi tækifæri til þess að leiða umræðuna, endurheimta traust og um leið treysta stoðir lýðræðisins í landinu. Hvorki meira né minna. Skipun rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, og vinna hennar, var mikilvægt framlag í þessa átt. Ákvörðunin um að afnema bankaleynd og hafa vinnuna jafn ítarlega og raun ber vitni var að mínum dómi nauðsynleg og til fyrirmyndar, en þó aðeins ef staðið hefði verið við stóru orðin um að fylgja skýrslunni úr hlaði. Sú ákvörðun hefur snúist í höndunum á þingmönnum. Fyrst og fremst vegna þess, að gagnsæi hefur ekki einkennt störf Alþingis, þjóðin hefur ekki fengið að fylgjast með vinnu þingsins um skýrsluna nema að sáralitlu leyti. Það veldur tortryggni. Ótti við spillingu blossar upp.II. Þingmannanefndin sem fékk rannsóknarskýrsluna í hendurnar ákvað að vinna úr þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni bak við luktar dyr að mestu. Ólíkt nær öllum vestrænum ríkjum sem tókust á við mikla atburði á haustmánuðum 2008, þegar skattgreiðendur fengu bankakerfi landa sinna í fangið – sem að formi til höfðu verið í einkaeigu víðast hvar – ákvað þingmannanefndin að vera ekki með opnar yfirheyrslur yfir þeim sem fjallað er um í skýrslunni. Þ.e. bankastjórum, embættismönnum og stjórnmálamönnum. Til samanburðar má líta til þess að bandaríska þingið brást skjótt við þeim ótrúlegu atburðum sem urðu á haustmánuðum 2008 þegar risabankar og tryggingarfyrirtæki á Wall Street lentu í fangi skattgreiðenda. Þingið kallaði bankastjórana fyrir einn af öðrum og spurði þá spjörunum úr fyrir framan alþjóð í beinni útsendingu. Með þessum hætti náði þingið traustara sambandi við þjóðina og sýndi að því var ekki sama um hvernig fór. Það sama má segja um þingið í Bretlandi, Hollandi og víðar. Hér á landi hefði þetta fyrirkomulag gefið Alþingi tækifæri til þess að vinna að uppgjörinu með opnum og lýðræðislegum hætti og um leið stuðlað að málefnalegri umræðu um það sem hér gerðist. Banka-, stjórnmála- og embættismenn hefðu þá getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri á formlegum vettvangi, sem hefði stuðlað að vandaðri umræðu um öll þeirra verk, hvaða skoðun sem menn hafa á þeim. Því miður var þetta ekki gert og hefur það ekki verið útskýrt í þaula. Þetta voru mikil mistök að mínu mati.III. Þingmannanefndin var of upptekin af því að fjalla um hvort það ætti að ákæra fyrrum ráðherra. Niðurstöðuna úr því máli þekkja allir og ekki ætlunin að fjalla sérstaklega um það hér. Ákæra á hendur ráðherra eða ráðherrum er smámál við hliðina á því að læra af því sem aflaga fór. Mín tilfinning er sú að almenningur telji stjórnmálamenn hafa sýnt af sér spillta framkomu, þegar þeir tóku eiginhagsmuni fram yfir almannahagsmuni í tengslum við mál er tengdust Landsdómi. Sú tilfinning finnst mér vera að miklu leyti rétt. Hún kristallaðist ekki síst í því þegar nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar vörðu flokksmenn sína þegar kom að kosningu um hvaða fyrrum ráðherra ætti að ákæra og hverja ekki. Rök þeirra fyrir ákvörðunum sínum voru aðhlátursefni. Allir sáu í gegnum atburðarásina. Eftir því sem lengra hefur liðið frá kosningunni í þinginu hefur líka sést að sumir þingmanna VG kusu gegn betri vitund og útkoman var fölsk gagnvart almenningi. Þetta hefur grafið undan málinu öllu og um leið tafið fyrir úrbótum á fjármálakerfinu, sem enn er að formi til að stórum hluta í einkaeigu en með skilyrðislausa ríkisábyrgð á öllu saman ef illa fer. IV. Sá Íslendingur sem hefur einna mesta þekkingu og reynslu af bankamálum og hagfræði, Ingimundur Friðriksson, fullyrðir í andmælabréfi sínu til rannsóknarnefndar Alþingis að ekkert hafi verið hægt að gera til þess að hindra fall bankanna, og aðgerðir seðlabankans hafi miðast við bestu upplýsingar á hverjum tíma. Ytri aðstæður hafi haft úrslitaáhrif, einkum aðstæðurnar sem sköpuðust eftir fall Lehman Brothers 15. september 2008. Það er auðvelt að segja; „Þetta er ekki rétt" og benda á innanmein íslensku bankanna, sem voru sannarlega miklu meiri og dýpri heldur en nokkurn óraði fyrir, sérstaklega umfang fjármögnunar þeirra á eigin hlutafé og lánafyrirgreiðsla til stærstu eigenda þeirra. Fjármögnun bankanna á eigin hlutafé rústaði trúverðugleika skráðs markaðar með verðbréf, sem hefur enn í dag afar neikvæð áhrif á ávöxtunarmarkað fyrir fjármagn hér á landi. Samt sem áður, er það einmitt efinn um hvort þetta geti hugsanlega verið rétt hjá Ingimundi, sem segir manni að Alþingi hafi ekki gegnt þeirri skyldu að velta við öllum steinum og draga fram meiri upplýsingar. Hvað sem mönnum finnst um athafnir fyrrum ráðherra, bankamanna og embættismanna, og sameiginlega ábyrgð þeirra á aðstæðunum sem hér sköpuðust, þ.e. mestu eignabólu sem myndast hefur í hagsögu heimsins, þá finnst mér að Alþingi geti ekkert annað gert en að leiða fram sem mest af upplýsingum með gagnsæi að leiðarljósi og lært af mistökunum sem gerð voru. Þetta hefur Alþingi ekki gert og fyrir vikið er traust á því lítið. V. Eitt af því sem gerðist haustið 2008 var að hrunið kom eins og fast hnefahögg framan í fjölmiðla landsins. Ég get ekki talað fyrir aðra blaðamenn en sjálfan mig, en ég hafði ekki hundsvit á því hvað var að gerast og hafði enga þekkingu á aðstæðum, enda hafði ég mest skrifað um pólitík og innlendar fréttir fram að hruninu. Fólk sem vann í bönkunum, sem ég talaði við, hafði ekki vit á þessu heldur. Það vissi einfaldlega ekkert hvað var um að vera! Eftir því sem liðið hefur lengra frá þessum atburðum er það einmitt það sem stendur upp úr á alþjóðavísu: Stjórnmálamenn, bankamenn, embættismenn og fjölmiðlar, tókust á við aðstæður þar sem þekking eða yfirsýn var ekki fyrir hendi. Fyrir vikið var ákvörðunartaka því marki brennd víðast hvar, held ég að sé óhætt að segja. VI. Þessi ónæga yfirsýn birtist með ýmsum hætti, líka í efsta lagi valdastigans. Þegar íslensku bankarnir voru að falla eins og spilaborg í september og október 2008, þá var Timothy Geithner, þá seðlabankastjóri í New York og nú fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í eitt skiptið á fjórum fótum að æla í ruslafötu á skrifstofu sinni, illa sofinn og stressaður. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, kallaði samstarfsfólk sitt öllum illum nöfnum og lét eins og illvígt naut dögum saman þegar mest gekk á, samkvæmt frásögnum sem birst hafa í breskum fjölmiðlum. Undirmenn hans fóru sumir að grenja undan skapofsanum í honum. Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður stjórnar seðlabankans, hótaði að gera útaf við Tryggva Þór Herbertsson hagfræðing og nú þingmann af því að þeir voru ósammála um eitthvað. Ég veit ekki hvort Tryggvi Þór fór að grenja, en hann virtist af lýsingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að dæma hafa orðið skelkaður. Eftir á að hyggja var þetta birtingarmynd þess að menn höfðu ekki yfirsýn og voru óöruggir um hvað væri framundan. Beinlínis hræddir. VII. Fjölmiðlar glíma alltaf við það að hafa lítinn tíma og yfirborðsþekkingu á viðfangsefnum sínum. Það var síðan til þess að bæta gráu ofan á svart í hruninu að stærstu eigendur bankanna áttu alla einkarekna fjölmiðla í landinu og íslensk stjórnvöld, trausti rúin, fóru með stjórn Ríkisútvarpsins í gegnum pólitískt skipaða yfirstjórn. Þetta jók á vantraust almennings gagnvart helstu stoðum samfélagsins. Fólk vissi ekki hverju það átti að trúa. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá hruni. Ég vil trúa því því að fjölmiðlar hafi lært af því sem aflaga fór og hafi metnað til þess að búa til sérþekkingu á ýmsum viðfangsefnum sem eru til umfjöllunar. Það er besta leiðin til þjónusta neytendur fjölmiðla, að því er mér finnst, en það er langtímaverkefni. VIII. Annað sem magnaði upp samfélagslega umræðu um hrunið og að einhverju leyti hina siðferðilegu kreppu í aðdraganda þess og eftirleik, var bylting í fjölmiðlasögu heimsins. Það er innreið tengsla milli samfélagsmiðla við hefðbundna ritstjórnarvinnu og fjölmiðlun, þar helst Facebook og Twitter. Þessar breytingar áttu sér stað hér á landi á svo til sama tíma og hrunið íslenska og gerðu það að verkum að tugþúsundir Íslendinga tóku virkan þátt í samfélagslegri umræðu inn á veraldarvefnum sem aldrei höfðu gert það áður. Þessar tengingar komu einnig í athugasemdakerfi hjá fjölmiðlum, eyjunni.is og DV.is þar á meðal. Einhverjum kann að finnast þetta vera léttvægt atriði í þessu öllu saman, en ég er ekki á því. Ég held að þetta hafi skipt miklu máli um hvernig umræðan hefur verið og hverjir hafa tekið þátt í henni. Ég er ekki endilega að segja að umræðan hafi verið verri fyrir vikið, heldur frekar að hún hafi verið stjórnlausari, hjá sumum óvægin og rætin, en virkilega málefnaleg og skemmtileg hjá öðrum. Hún hefur líka verið tilfinningahlaðin oft á tíðum. Við skulum heldur ekki gleyma því að áhrif samfélagsmiðla eins og Facebook á fjölmiðlageirann hafa verið ótrúleg á skömmum tíma og verða seint ofmetin. Notendur Facebook eru að nálgast milljarð manna á heimsvísu. Facebook hefur stýrandi áhrif á nær alla fjölmiðlun í heiminum nú um stundir og áhrifin aukast sífellt. Opinber umræða hefur að miklu leyti færst frá hefðbundnum fjölmiðlum inn á samfélagsmiðlana á undraskömmum tíma, á sögulegum tímum í heiminum. IX. Hægagangur rannsókna hefur líka sitt að segja í hinni siðferðilegu kreppu. Núna, tæplega þremur og hálfi ári eftir hrun bankakerfisins, hefur Hæstiréttur ekki fellt neinn dóm í máli er tengist hruninu. Það þýðir að mörg ár enn mun taka að ljúka þessum málum. Vafalítið á þetta sér að miklu leyti eðlilegar skýringar vegna umfangs málanna. En þetta er erfitt fyrir litla 320 þúsund manna þjóð, þar sem „allir þekkja alla" eins og stundum er sagt. Mannorðsdómurinn er þungur í þeim aðstæðum og því eru rannsakendur í erfiðri og viðkvæmri stöðu, á sama tíma tíma og augljóst er hverjir eru þolendur flestra þeirra meintu glæpa sem til rannsóknar eru. Þolendurnir eru almenningur. X. Efnahagslegur vandi heimilanna hangir saman við þetta. Óréttlætið í huga fólks er hrópandi. Skuldir hafa hækkað mikið og eignir fallið eða gufað upp, bankar á ábyrgð skattgreiðenda vörðu verðbréfaeignir útvaldra einstaklinga í peningamarkaðsjóðum án þess að upplýst hafi verið um hvernig það gerðist nákvæmlega og af hverju, krónan var felld kerfisbundið af bönkum og stórum viðskiptavinum þeirra að mati starfsmanna seðlabankans og lífeyrissjóða, fyrrum bankamenn og stærstu viðskiptavinir hinna föllnu banka lifa í vellystingum á meðan 60 þúsund heimili berjast í bökkum samkvæmt tölum Hagstofunnar, tap lífeyrissjóðanna nam um 500 milljörðum króna vegna hrunsins, og svo mætti lengi telja. Þetta ýtir frekar undir hina siðferðislegu kreppu, svo ekki sé fastar að orði kveðið.Árekstur Þorsteinn sagði einu sinni í tíma sem ég sat að mikilvægustu augnablikin í lífi fólks væru „árekstrar við réttlætið". Hann var að þá að tala um nytjastefnu og hvernig hún ætti að hjálpa til við hámörkun hamingjunnar, hvorki meira né minna. Hann var gagnrýninn og sagði marga lenda í „hörðum árekstrum við réttlætið" þegar þeir væru að marka sér stöðu í sandi nytjastefnunnar, eins og hann orðaði það. Það má segja að hrunið hafi verið einn harðasti árekstur við réttlætið sem íslenska þjóðin hefur lent í. Hún er enn að ná sér, og berst við mikið samfélagslegt vantraust. Eins og jafnan eftir árekstra og áföll krefst endurhæfing þjóðarinnar mikillar þolinmæði og æðruleysis. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Halldórsson Mest lesið 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Samfylkingin er með plan um að lögfesta leikskólastigið Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Fatlað fólk á betra skilið Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Ákall um jákvæða hvata til grænna fjárfestinga Kristín Þöll Skagfjörð Skoðun Hver er stefna Viðreisnar í heilbrigðismálum og hvernig virkar hún í praksis? Sigurrós Huldudóttir Skoðun Plan í heilbrigðis- og öldrunarmálum - þjóðarátak í umönnun eldra fólks Árni Rúnar Þorvaldsson Skoðun
Einn eftirminnilegasti kennari sem ég hef haft í gegnum tíðina er Þorsteinn Gylfason heitinn, heimspekiprófessor. Hann var stórkostlegur kennari, afburðagóður fyrirlesari og með yfirburðaþekkingu á viðfangsefninu hverju sinni. Ekki aðeins innra lagi þess - fræðilegum kenningum og inntaki þeirra – heldur ekki síður ytra laginu, þ.e. sögulegum rótum fræðanna, uppsprettu hugmyndanna. Þar kom vítt svið þekkingar hans á menningu og listum til hjálpar. Stundum spilaði hann klassíska tónlist, frá samtíma viðfangsefnisins, til þess að glæða kennsluna lífi. Því fylgdu stundum handahreyfingar og einlæg innlifun.Þrefaldur skammtur Í tímum hjá Þorsteini fengu nemendur alltaf í það minnsta þrefaldan skammt; djúpa greiningu fræða, sögulegan bakgrunn þeirra og síðan einstaka framsögu, sem oftar en ekki leiddi til líflegrar umræðu í tímum. Hann tók öllum nemendum jafnt, lötum sem duglegum. Það er góður eiginleiki fyrir háskólakennara að hafa þar sem háskólanemar eru fjölbreyttur hópur fólks sem er statt á misjöfnum stað á lífsins leið. Þorsteins er sárt saknað við að leysa úr þeirri siðferðilegu kreppu sem íslenska þjóðin er í eftir hrun bankakerfisins, krónunnar og neyðarlagasetninguna 6. október 2008. Beiting neyðarréttarins er siðferðilegt viðfangsefni í eðli sínu, og endurreisn hagkerfisins hefur markast af þeirri ákvörðun. Hvenær er réttlætanlegt að beita neyðarrétti, jafnvel þó að hann beinist óbeint og óhjákvæmilega gegn öðrum þjóðum og hagsmunum þeirra? Það er stóra spurningin. Flestir eru sammála um að neyðarrétturinn hafi bjargað Íslandi úr fordæmalausum aðstæðum og beiting hans verið það eina rétta. Að eðli er þetta sama álitamál og Bretland, Bandaríkin og aðrar stórþjóðir, standa frammi fyrir þegar þær brjóta gegn viðurkenndum lögvernduðum mannréttindum í krafti hryðjuverkalöggjafar, með pyntingum eða til að hindra fjármagnsflutninga sem þær telja óæskilega. Þá er inngripi beitt í krafti neyðarsjónarmiða. Það er t.d. ágætt að halda því til haga, hvað neyðarréttinn snertir, að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins trúðu því ekki að Ísland ætlaði í alvöru að setja neyðarlög haustið 2008 en ekki bera ábyrgð á bönkunum. Þeir voru víst öskuillir, að því er Árni Páll Árnason upplýsti um í ræðu á ráðstefnu í Hörpunni sl. haust.Siðferðiskreppan alvarlegri Mín skoðun er sú, að siðferðilega kreppan sem Ísland er í sé alvarlegri en efnahagserfiðleikarnir. Þeir munu leysast, og eru að leysast, hægt og bítandi. Landsins gæði gera okkur kleift að spyrna við fótum og aðlaga efnahaginn með hjálp okkar eigin seðlabanka hraðar að breyttum veruleika en flest önnur ríki. Það er þolinmæðisverk og ætti að vinnast, hvaða stjórnmálaflokkar sem það eru sem ráða för. Siðferðilega kreppan er alvarlegri en sú efnahagslega af nokkrum ástæðum og er að hluta til við Alþingi að sakast í þeim efnum, að því er mér finnst. En hvernig birtist hún okkur og af hverju er hún alvarleg? Þar koma nokkur atriði upp í hugann.I. Eftir bankahrunið hafði Alþingi tækifæri til þess að leiða umræðuna, endurheimta traust og um leið treysta stoðir lýðræðisins í landinu. Hvorki meira né minna. Skipun rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, og vinna hennar, var mikilvægt framlag í þessa átt. Ákvörðunin um að afnema bankaleynd og hafa vinnuna jafn ítarlega og raun ber vitni var að mínum dómi nauðsynleg og til fyrirmyndar, en þó aðeins ef staðið hefði verið við stóru orðin um að fylgja skýrslunni úr hlaði. Sú ákvörðun hefur snúist í höndunum á þingmönnum. Fyrst og fremst vegna þess, að gagnsæi hefur ekki einkennt störf Alþingis, þjóðin hefur ekki fengið að fylgjast með vinnu þingsins um skýrsluna nema að sáralitlu leyti. Það veldur tortryggni. Ótti við spillingu blossar upp.II. Þingmannanefndin sem fékk rannsóknarskýrsluna í hendurnar ákvað að vinna úr þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni bak við luktar dyr að mestu. Ólíkt nær öllum vestrænum ríkjum sem tókust á við mikla atburði á haustmánuðum 2008, þegar skattgreiðendur fengu bankakerfi landa sinna í fangið – sem að formi til höfðu verið í einkaeigu víðast hvar – ákvað þingmannanefndin að vera ekki með opnar yfirheyrslur yfir þeim sem fjallað er um í skýrslunni. Þ.e. bankastjórum, embættismönnum og stjórnmálamönnum. Til samanburðar má líta til þess að bandaríska þingið brást skjótt við þeim ótrúlegu atburðum sem urðu á haustmánuðum 2008 þegar risabankar og tryggingarfyrirtæki á Wall Street lentu í fangi skattgreiðenda. Þingið kallaði bankastjórana fyrir einn af öðrum og spurði þá spjörunum úr fyrir framan alþjóð í beinni útsendingu. Með þessum hætti náði þingið traustara sambandi við þjóðina og sýndi að því var ekki sama um hvernig fór. Það sama má segja um þingið í Bretlandi, Hollandi og víðar. Hér á landi hefði þetta fyrirkomulag gefið Alþingi tækifæri til þess að vinna að uppgjörinu með opnum og lýðræðislegum hætti og um leið stuðlað að málefnalegri umræðu um það sem hér gerðist. Banka-, stjórnmála- og embættismenn hefðu þá getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri á formlegum vettvangi, sem hefði stuðlað að vandaðri umræðu um öll þeirra verk, hvaða skoðun sem menn hafa á þeim. Því miður var þetta ekki gert og hefur það ekki verið útskýrt í þaula. Þetta voru mikil mistök að mínu mati.III. Þingmannanefndin var of upptekin af því að fjalla um hvort það ætti að ákæra fyrrum ráðherra. Niðurstöðuna úr því máli þekkja allir og ekki ætlunin að fjalla sérstaklega um það hér. Ákæra á hendur ráðherra eða ráðherrum er smámál við hliðina á því að læra af því sem aflaga fór. Mín tilfinning er sú að almenningur telji stjórnmálamenn hafa sýnt af sér spillta framkomu, þegar þeir tóku eiginhagsmuni fram yfir almannahagsmuni í tengslum við mál er tengdust Landsdómi. Sú tilfinning finnst mér vera að miklu leyti rétt. Hún kristallaðist ekki síst í því þegar nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar vörðu flokksmenn sína þegar kom að kosningu um hvaða fyrrum ráðherra ætti að ákæra og hverja ekki. Rök þeirra fyrir ákvörðunum sínum voru aðhlátursefni. Allir sáu í gegnum atburðarásina. Eftir því sem lengra hefur liðið frá kosningunni í þinginu hefur líka sést að sumir þingmanna VG kusu gegn betri vitund og útkoman var fölsk gagnvart almenningi. Þetta hefur grafið undan málinu öllu og um leið tafið fyrir úrbótum á fjármálakerfinu, sem enn er að formi til að stórum hluta í einkaeigu en með skilyrðislausa ríkisábyrgð á öllu saman ef illa fer. IV. Sá Íslendingur sem hefur einna mesta þekkingu og reynslu af bankamálum og hagfræði, Ingimundur Friðriksson, fullyrðir í andmælabréfi sínu til rannsóknarnefndar Alþingis að ekkert hafi verið hægt að gera til þess að hindra fall bankanna, og aðgerðir seðlabankans hafi miðast við bestu upplýsingar á hverjum tíma. Ytri aðstæður hafi haft úrslitaáhrif, einkum aðstæðurnar sem sköpuðust eftir fall Lehman Brothers 15. september 2008. Það er auðvelt að segja; „Þetta er ekki rétt" og benda á innanmein íslensku bankanna, sem voru sannarlega miklu meiri og dýpri heldur en nokkurn óraði fyrir, sérstaklega umfang fjármögnunar þeirra á eigin hlutafé og lánafyrirgreiðsla til stærstu eigenda þeirra. Fjármögnun bankanna á eigin hlutafé rústaði trúverðugleika skráðs markaðar með verðbréf, sem hefur enn í dag afar neikvæð áhrif á ávöxtunarmarkað fyrir fjármagn hér á landi. Samt sem áður, er það einmitt efinn um hvort þetta geti hugsanlega verið rétt hjá Ingimundi, sem segir manni að Alþingi hafi ekki gegnt þeirri skyldu að velta við öllum steinum og draga fram meiri upplýsingar. Hvað sem mönnum finnst um athafnir fyrrum ráðherra, bankamanna og embættismanna, og sameiginlega ábyrgð þeirra á aðstæðunum sem hér sköpuðust, þ.e. mestu eignabólu sem myndast hefur í hagsögu heimsins, þá finnst mér að Alþingi geti ekkert annað gert en að leiða fram sem mest af upplýsingum með gagnsæi að leiðarljósi og lært af mistökunum sem gerð voru. Þetta hefur Alþingi ekki gert og fyrir vikið er traust á því lítið. V. Eitt af því sem gerðist haustið 2008 var að hrunið kom eins og fast hnefahögg framan í fjölmiðla landsins. Ég get ekki talað fyrir aðra blaðamenn en sjálfan mig, en ég hafði ekki hundsvit á því hvað var að gerast og hafði enga þekkingu á aðstæðum, enda hafði ég mest skrifað um pólitík og innlendar fréttir fram að hruninu. Fólk sem vann í bönkunum, sem ég talaði við, hafði ekki vit á þessu heldur. Það vissi einfaldlega ekkert hvað var um að vera! Eftir því sem liðið hefur lengra frá þessum atburðum er það einmitt það sem stendur upp úr á alþjóðavísu: Stjórnmálamenn, bankamenn, embættismenn og fjölmiðlar, tókust á við aðstæður þar sem þekking eða yfirsýn var ekki fyrir hendi. Fyrir vikið var ákvörðunartaka því marki brennd víðast hvar, held ég að sé óhætt að segja. VI. Þessi ónæga yfirsýn birtist með ýmsum hætti, líka í efsta lagi valdastigans. Þegar íslensku bankarnir voru að falla eins og spilaborg í september og október 2008, þá var Timothy Geithner, þá seðlabankastjóri í New York og nú fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í eitt skiptið á fjórum fótum að æla í ruslafötu á skrifstofu sinni, illa sofinn og stressaður. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, kallaði samstarfsfólk sitt öllum illum nöfnum og lét eins og illvígt naut dögum saman þegar mest gekk á, samkvæmt frásögnum sem birst hafa í breskum fjölmiðlum. Undirmenn hans fóru sumir að grenja undan skapofsanum í honum. Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður stjórnar seðlabankans, hótaði að gera útaf við Tryggva Þór Herbertsson hagfræðing og nú þingmann af því að þeir voru ósammála um eitthvað. Ég veit ekki hvort Tryggvi Þór fór að grenja, en hann virtist af lýsingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að dæma hafa orðið skelkaður. Eftir á að hyggja var þetta birtingarmynd þess að menn höfðu ekki yfirsýn og voru óöruggir um hvað væri framundan. Beinlínis hræddir. VII. Fjölmiðlar glíma alltaf við það að hafa lítinn tíma og yfirborðsþekkingu á viðfangsefnum sínum. Það var síðan til þess að bæta gráu ofan á svart í hruninu að stærstu eigendur bankanna áttu alla einkarekna fjölmiðla í landinu og íslensk stjórnvöld, trausti rúin, fóru með stjórn Ríkisútvarpsins í gegnum pólitískt skipaða yfirstjórn. Þetta jók á vantraust almennings gagnvart helstu stoðum samfélagsins. Fólk vissi ekki hverju það átti að trúa. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá hruni. Ég vil trúa því því að fjölmiðlar hafi lært af því sem aflaga fór og hafi metnað til þess að búa til sérþekkingu á ýmsum viðfangsefnum sem eru til umfjöllunar. Það er besta leiðin til þjónusta neytendur fjölmiðla, að því er mér finnst, en það er langtímaverkefni. VIII. Annað sem magnaði upp samfélagslega umræðu um hrunið og að einhverju leyti hina siðferðilegu kreppu í aðdraganda þess og eftirleik, var bylting í fjölmiðlasögu heimsins. Það er innreið tengsla milli samfélagsmiðla við hefðbundna ritstjórnarvinnu og fjölmiðlun, þar helst Facebook og Twitter. Þessar breytingar áttu sér stað hér á landi á svo til sama tíma og hrunið íslenska og gerðu það að verkum að tugþúsundir Íslendinga tóku virkan þátt í samfélagslegri umræðu inn á veraldarvefnum sem aldrei höfðu gert það áður. Þessar tengingar komu einnig í athugasemdakerfi hjá fjölmiðlum, eyjunni.is og DV.is þar á meðal. Einhverjum kann að finnast þetta vera léttvægt atriði í þessu öllu saman, en ég er ekki á því. Ég held að þetta hafi skipt miklu máli um hvernig umræðan hefur verið og hverjir hafa tekið þátt í henni. Ég er ekki endilega að segja að umræðan hafi verið verri fyrir vikið, heldur frekar að hún hafi verið stjórnlausari, hjá sumum óvægin og rætin, en virkilega málefnaleg og skemmtileg hjá öðrum. Hún hefur líka verið tilfinningahlaðin oft á tíðum. Við skulum heldur ekki gleyma því að áhrif samfélagsmiðla eins og Facebook á fjölmiðlageirann hafa verið ótrúleg á skömmum tíma og verða seint ofmetin. Notendur Facebook eru að nálgast milljarð manna á heimsvísu. Facebook hefur stýrandi áhrif á nær alla fjölmiðlun í heiminum nú um stundir og áhrifin aukast sífellt. Opinber umræða hefur að miklu leyti færst frá hefðbundnum fjölmiðlum inn á samfélagsmiðlana á undraskömmum tíma, á sögulegum tímum í heiminum. IX. Hægagangur rannsókna hefur líka sitt að segja í hinni siðferðilegu kreppu. Núna, tæplega þremur og hálfi ári eftir hrun bankakerfisins, hefur Hæstiréttur ekki fellt neinn dóm í máli er tengist hruninu. Það þýðir að mörg ár enn mun taka að ljúka þessum málum. Vafalítið á þetta sér að miklu leyti eðlilegar skýringar vegna umfangs málanna. En þetta er erfitt fyrir litla 320 þúsund manna þjóð, þar sem „allir þekkja alla" eins og stundum er sagt. Mannorðsdómurinn er þungur í þeim aðstæðum og því eru rannsakendur í erfiðri og viðkvæmri stöðu, á sama tíma tíma og augljóst er hverjir eru þolendur flestra þeirra meintu glæpa sem til rannsóknar eru. Þolendurnir eru almenningur. X. Efnahagslegur vandi heimilanna hangir saman við þetta. Óréttlætið í huga fólks er hrópandi. Skuldir hafa hækkað mikið og eignir fallið eða gufað upp, bankar á ábyrgð skattgreiðenda vörðu verðbréfaeignir útvaldra einstaklinga í peningamarkaðsjóðum án þess að upplýst hafi verið um hvernig það gerðist nákvæmlega og af hverju, krónan var felld kerfisbundið af bönkum og stórum viðskiptavinum þeirra að mati starfsmanna seðlabankans og lífeyrissjóða, fyrrum bankamenn og stærstu viðskiptavinir hinna föllnu banka lifa í vellystingum á meðan 60 þúsund heimili berjast í bökkum samkvæmt tölum Hagstofunnar, tap lífeyrissjóðanna nam um 500 milljörðum króna vegna hrunsins, og svo mætti lengi telja. Þetta ýtir frekar undir hina siðferðislegu kreppu, svo ekki sé fastar að orði kveðið.Árekstur Þorsteinn sagði einu sinni í tíma sem ég sat að mikilvægustu augnablikin í lífi fólks væru „árekstrar við réttlætið". Hann var að þá að tala um nytjastefnu og hvernig hún ætti að hjálpa til við hámörkun hamingjunnar, hvorki meira né minna. Hann var gagnrýninn og sagði marga lenda í „hörðum árekstrum við réttlætið" þegar þeir væru að marka sér stöðu í sandi nytjastefnunnar, eins og hann orðaði það. Það má segja að hrunið hafi verið einn harðasti árekstur við réttlætið sem íslenska þjóðin hefur lent í. Hún er enn að ná sér, og berst við mikið samfélagslegt vantraust. Eins og jafnan eftir árekstra og áföll krefst endurhæfing þjóðarinnar mikillar þolinmæði og æðruleysis.
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
Hver er stefna Viðreisnar í heilbrigðismálum og hvernig virkar hún í praksis? Sigurrós Huldudóttir Skoðun
Plan í heilbrigðis- og öldrunarmálum - þjóðarátak í umönnun eldra fólks Árni Rúnar Þorvaldsson Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
Hver er stefna Viðreisnar í heilbrigðismálum og hvernig virkar hún í praksis? Sigurrós Huldudóttir Skoðun
Plan í heilbrigðis- og öldrunarmálum - þjóðarátak í umönnun eldra fólks Árni Rúnar Þorvaldsson Skoðun