Viðskipti erlent

Aðalhagfræðingur: Grikkir munu svíkja gefin loforð

Grikkir munu ekki standa við neitt af þeim loforðum sem gefin verða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Um leið og þeir hafa fengið nýjasta neyðarlán sitt munu Grikkir steingleyma öllu sem þeir lofuðu um niðurskurð og sparnað í rekstri hins opinbera þar í landi.

Þetta er mat Christian Tegllund Blaabjerg aðalhagfræðings FIH bankans í Danmörku. Í viðtali við börsen segir Blaabjerg að þessi orð hans kunni að vera kaldhæðin en sagan og reynslan sýni að þau séu réttmæt.

"Fyrsta neyðarláninu til Grikklands fylgdu nokkur skilyrði um sparnað og niðurskurð sem átti að koma í gegn með löggjöf á gríska þinginu. Nú hálfu öðru ári síðar hefur ekkert af þessu staðist," segir Blaabjerg.

Nýjustu fregnir frá Aþenu herma að loksins sjái fyrir endan á samningaviðræðum stjórnarflokkanna um þann sparnað og hagræðingu sem þarf til að hið nýja neyðarlán fáist frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Líklegt þykir að samkomulagið verði í höfn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×